Tryggingarekstur hér á landi er ekki eins arðsamur og á Norðurlöndunum og tjónahlutfall tryggingafélaganna hérlendis er hærra. Tryggingafélög á Íslandi eru með hæsta samsetta hlutfall vátrygginga í Evrópu, en hlutfall yfir 100% þýðir að iðgjöld séu lægri en samtala tjónagreiðslna og rekstrarkostnaðar. Meðaltalið á árunum 2017-2022 fyrir samsett hlutfall vátrygginga án líftrygginga var 91,6% í Evrópu og á bilinu 85-96% á öðrum Norðurlöndum. Hérlendis var það 100,7%. Hátt hlutfall hérlendis skýrist einkum af mjög háu tjónahlutfalli. Tjónahlutfallið var 80% hérlendis á tímabilinu frá 2017-2022 en meðaltalið í Evrópu var 59%. Það þýðir að 80% af greiddum iðgjöldum íslensku tryggingafélaganna eru nýtt til þess að greiða út bætur.

Þetta kemur fram í samrunaskrá vegna kaupa Landsbankans á öllu hlutafé í tryggingafélaginu TM þar sem vísað er í meistararitgerð Hörpu Hjartardóttur Er dýrt að tryggja á Íslandi? – Tryggingar á Íslandi og í norrænu samhengi. Einnig er vitnað í gögn frá Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni (EIOPA).

Með öðrum orðum má því segja að átta af hverjum tíu krónum sem viðskiptavinir greiða tryggingafélögum í iðgjöld skaðatrygginga fari í að greiða út bætur til viðskiptavina. Með skaðatryggingarstarfsemi er átt við alla tryggingarstarfsemi utan líftryggingastarfsemi. Kostnaður við að standa undir rekstri tryggingafélaganna samsvaraði því rúmlega tveimur krónum af hverjum tíu sem fengust í iðgjöld. Skaðatryggingahlutinn í heild var því í mínus.

Aðgangshindranir inn á vátryggingarmarkað lúta helst að nauðsynlegu fjármagni og tiltölulega þungu regluverki og eftirliti, að því er segir í samrunaskránni. Sækja þurfi um viðeigandi leyfi en að öðru leyti sé ekki um sérstakar aðgangshindranir að ræða á vátryggingamarkaði.

„Helsta ástæða þess að tryggingafélög í Skandinavíu bjóða ekki skaðatryggingar á Íslandi er líklega sú að afkoma af þeim er slök hérlendis og umtalsvert verri en í Skandinavíu. Það er því ekki heillandi fyrir skandinavísk tryggingafélög að stíga inn á íslenskan skaðatryggingamarkað, þar sem svo mikil samkeppni ríkir. Þá er það mat samrunaaðila að þeir njóti samkeppnislegs aðhalds hugsanlegra keppinauta, og má í því tilliti nefna að nýtt líftryggingafélag, Ösp, sem bíður nú eftir starfsleyfi frá FME,“ segir í samrunaskránni.

Hvað varði möguleika nýrra aðila til innkomu á vátryggingamarkað og þátttöku í samkeppni sé það mat samrunaaðila að samkeppnisaðstæður bjóði upp á slíkt. Í sögulegu samhengi megi benda á öran vöxt tryggingafélagsins Varðar á fyrstu tíu árum starfsemi þess félags, þar sem markaðshlutdeild óx úr 6% í 16% og viðskiptavinum fjölgaði úr 18.000 í 70.000. Í einstaka tryggingaflokkum séu þó aðilar sem veiti öfluga samkeppni, t.d. í fiskeldistryggingum frá evrópskum tryggingafélögum og skipatryggingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.