Stóru kerfislega mikilvægu bankarnir vestanhafs byrja að skila árshlutauppgjörum í vikunni en von er á uppgjörum frá JPMorgan Chase, Citigroup og Well Fargo á föstudaginn.
Samkvæmt The Wall Street Journal verða augu fjárfesta á þó nokkrum hlutum en þar á meðal er óinnleyst tap bankanna.
Samkvæmt gögnum Innistæðutryggingarsjóðs (FDIC) eru bankarnir með um 517 milljarða dala óinnleyst tap á bókunum sínum sem er um 71 þúsund milljarðar íslenskra króna.
Samkvæmt tilkynningu frá FDIC í maí er óinnleysta tapið „óvenju hátt“ og hefur verið í næstum tvö ár.
Ástæðuna má rekja til þess að bankarnir keyptu mikið af ríkisskuldabréfum og sértryggðum skuldabréfum meðan vextir vestanhafs voru lágir og innistæður miklar vegna COVID-19.
Þegar Seðlabanki Bandaríkjanna byrjaði að hækka vexti árið 2022 lækkaði virði bréfanna töluvert.
Flestir bankanna munu ekki þurfa selja bréfin og innleysa þannig tapið nema þeir lendi í töluverðum vandræðum.

© Skjáskot (Skjáskot)
Til að mynda var það ástæðan fyrir því að Silicon Valley Bank fór á hausinn en bankinn neyddist til að losa sig við töluvert magn af sértryggðum skuldabréfum á afsláttarkjörum sem olli mikilli ókyrrð á markaðnum.
Bankinn fór á hausinn nokkrum dögum síðar.
Samkvæmt greiningaraðilum vestanhafs ætti ekki að vera mikill breyting á óinnleystu tapi bankanna á öðrum ársfjórðungi enda endaði ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára á sama stað í lok fjórðungsins og í lok fyrsta fjórðungs.