„Sérhækkanir ofan á sérréttindi opinberra starfsmanna eru ekki til þess fallnar að auka samstöðu á vinnumarkaði,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), innt eftir viðbrögðum við nýjum kjarasamning Kennarasambands Íslands við ríki og sveitarfélög. Samningurinn felur í sér 24% hækkun launa á fjögurra ára samningstímabilinu, sem er umfram launahækkanir sem samið var um í Stöðugleikasamningnum á almennum vinnumarkaði.

Hún bendir á að sjö af hverjum tíu á Íslandi starfi á almennum vinnumarkaði og á þeim markaði sé þegar búið að gera kjarasamninga fyrir 99% starfsmanna. Kostnaðarmat þeirra samninga sé í takt við heildarsvigrúm sem sé fyrir launahækkanir sem samræmist verðstöðugleika.

„Sú launastefna sem samið var um í þeim samningum er í meira jafnvægi en undanfarin ár vegna þess að markmiðin með samningunum voru alveg skýr. Launastefna í jafnvægi þýðir minna launaskrið og það ættu flestir að vera farnir að þekkja það að launahækkanir sem samræmast verðstöðguleika fara ekki umfram 3,5-4% árlega.“

Sigríður Margrét bendir á að opinberir starfsmenn njóti sérréttinda umfram starfsmenn á almennum vinnumarkaði sem felist í styttri vinnutíma, lengra orlofi, auknum veikindarétti og meiri uppsagnarvernd. Virði þessara réttinda séu óumdeild þó deilt sé um nákvæm verðmæti þeirra í hlutfalli af launum en nýlegar greiningar sýni fram á að þau séu ígildi á bilinu 10-19% hærri launa.

Vísar hún þar til að í greiningu Viðskiptaráðs Íslands var virði sérréttinda opinberra starfsmanna metið til 19% launahækkunar, auk þess sem Samband íslenskra sveitarfélaga hafi metið virði sérréttindanna til 10-15% launahækkunar.

„Þegar sú staða er uppi og gerðir eru kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði um sérhækkanir umfram launastefnu er eðlilegt að samningsaðilar á almennum vinnumarkaði reki upp stór augu og staldri við. Nýgerðir kjarasamningar við kennara fela í sér viðbótarhækkun í ár sem er ígildi tvöfaldrar hækkunar á almennum markaði fyrir framhaldsskólakennara og tæplega þrefalda hækkun fyrir grunn- og leikskólakennara. Rökstuðningur þessara sérhækkana er sá að þær séu innborgun á virðismat, en við eigum eftir að sjá í hverju nákvæmlega það felst. Stjórnvöld segja að þau leggi áherslu á að ná efnahagslegum stöðugleika, vilji stuðla að því að verðbólga minnki og vextir haldi áfram að lækka. Við þurfum að sjá það í verki,“ segir hún.

Mikilvægt að samræma réttindi milli markaða

Í nýrri skýrslu SA um vinnumarkaðinn á Íslandi er sjónum m.a. beint að þessum sérréttindum opinberra starfsmanna og kallað eftir jafnari samkeppnisgrundvelli.

Í skýrslunni er bent á að hið opinbera sé í harðri samkeppni við almenna markaðinn um vinnuafl. Á tímabilum hafi hið opinbera leitt launaþróun í landinu. Í ofanálag hafi starfsmenn hins opinbera, eins og Sigríður Margrét hefur þegar bent á, mun ríkari réttindi heldur en starfsmenn á almenna markaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.