OK hefur opnað nýja skrifstofu að Austurvegi á Selfossi en fyrirtækið keypti jafnframt upplýsingafyrirtækið TRS á Selfossi í nóvember í fyrra.

Það félag varð OK á Suðurlandi þar sem um 20 sérfræðingar starfa í dag. Fyrirtækið hefur verið bakhjarl um 330 fyrirtækja og er starfsemin hluti af stærra teymi OK á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu.

„Nýtt skrifstofurými veitir okkur burði til að sækja enn frekar fram en tryggja um leið að núverandi viðskiptavinir fái áfram þá persónulega þjónustu sem við erum þekkt fyrir. Okkar markmið er að styðja við fyrirtæki í nærumhverfi okkar svo að þau geti einbeitt sér að sinni starfsemi og vaxið og dafnað,“ segir Karl Óskar Kristbjarnarson, rekstrarstjóri OK á Suðurlandi.

OK er tölvufyrirtæki sem var stofnað árið 1985 og sérhæfir sig í sölu og ráðgjöf á tæknilausnum og tengdri þjónustu.