Þúsundir ökumanna í Englandi hafa verið að fá kröfur sendar í heimabanka vegna stöðumælasekta frá einkareknum bílastæðafyrirtækjum vegna bilaðra greiðsluvéla. Á vef Guardian segir að kröfurnar hljóði upp á allt að 170 pund, eða næstum 29 þúsund krónur.

Mörg bílastæði í borgum Englands, svipað og í Reykjavík, krefjast þess að ökumenn slái inn bílnúmeraplötur ökutækja sinna til að tryggja að þeir fái ekki sekt þegar ekið er svo af brott.

Samkvæmt gögnum frá rannsóknarfyrirtækinu RAC Foundation og fjölmiðlinum PA Media senda bílastæðafyrirtæki þar í landi að meðaltali 41 þúsund tilkynningar um greiðslukröfu til breskra ökumanna á hverjum degi.

Margir ökumenn halda því hins vegar fram að þeir hafi fengið stöðumælasekt þrátt fyrir að hafa slegið inn rétt bílnúmer.

Lynda Eagan er kona sem rekur Facebook-hóp, sem telur 47 þúsund notendur, þar sem Bretum er boðin aðstoð og ráðgjöf um bílastæðasektir. Á síðunni hefur fjöldi fólks tjáð sig um það hve margar greiðsluvélar sem eru í notkun séu einfaldlega bilaðar.

Hún segir algengustu kvörtunina vera vegna klístraðra takka sem valda því að númeraplötur séu ekki skráðar rétt inn í kerfið. Þar sem margar vélar biðji fólk einnig um að greiða áður en númeraplatan er slegin inn er lítið hægt að gera þegar kerfið les svo númeraplötuna vitlaust.