Sílafur ehf., félag Ólafs Arnalds tónlistarmanns, hagnaðist um 260 milljónir króna í fyrra sem var dágóð aukning frá 50 milljóna hagnaði ársins áður, en lunga aukningarinnar má rekja til 194 milljóna króna hagnaðar af eignarhlutum og verðbréfum.

Ekki er tilgreint um hvaða eign hafi verið að ræða, en félagið átti 14% hlut í Öldu Music sem seldur var til útgáfurisans Universal í fyrra. Seldar vörur og þjónusta námu 209 milljónum og jukust um hátt í 50%. Rekstrargjöld jukust um ríflega fjórðung og námu 127 milljónum.

Hreinar vaxtatekjur námu 1,6 milljónum og helminguðust milli ára og gengismunur var jákvæður upp á 7,5 milljónir. Heildareignir námu 471 milljón og hækkuðu um tæp 50% og eigið fé var 425 milljónir. Eiginfjárhlutfall var því 90% og féll um 3 prósentustig milli ára.

Greidd laun námu 21,1 milljón og jukust lítillega en ársverk voru tvö sem var óbreytt. Meðallaun voru því 881 þúsund krónur á mánuði.