New York Times fjallaði ítarlega um helgina um kaup hundrað milljarða dala kaup fjarskiptarisans AT&T á fjölmiðlafyrirtækinu Time Warner árið 2016. Viðskiptin reyndust misheppnuð og kostuðu hluthafa AT&T yfir 40 milljarða dala, miðað við virði samningsins þegar hann var kynntur. NYT veltir fyrir sér hvort að samruninn sé sá versti í sögunni.

Ólafur Jóhann Ólafsson var aðstoðarforstjóri Time Warner þegar viðskiptin áttu sér stað. Í greininni er sagt frá fögnuði hjá um 50 stjórnendum AT&T, lögmönnum og bankastarfsmönnum ásamt nokkrum stjórnendum Time Warner á Peninsula Hotel í Manhattan eftir að viðskiptin voru heimiluð. Ólafur, sem hafði þá nýlátið af störfum, var viðstaddur fögnuðinn.

Stjórnendur AT&T svo gott sem hunsuðu fulltrúa Time Warner yfir kvöldverðinum. Þó stjórnendur AT&T hafi reynt að vera kurteisir, þá hafi skinið í gegn að kaupin væru einungis enn einn landvinningur í röð yfirtaka hjá fjarskiptarisanum.

Haft er eftir Ólafi að „enginn sem var viðstaddur þetta kvöld taldi hugsanlegt að við hefðum endað í réttum höndum“.

Bloomberg greindi frá því árið 2018 að Ólafur Jóhann hafi fengið um 15,3 milljónir dala greiðslu, eða sem nam þá 1,6 milljörðum króna, við samrunann. Hann var meðal fimm helstu stjórnenda Time Warner sem fengu samtals 216 milljónir dala eftir að alríkisdómari samþykkti viðskiptin.