Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, mættu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í síðustu viku. Þar ræddu þeir m.a. íslenska lífeyriskerfið og komu inn á ýmsar vangaveltur um hvernig þeir telji að bæta megi kerfið.

Þar lýsti Ásgeir því yfir að þörf væri á endurskoðun á löggjöf um lífeyrissjóði. Hann telur að það þurfi að setja sérstaka löggjöf um viðbótarlífeyrissparnað og aðgreina hann frá skyldusparnaðinum.

„Ég tel líka að út frá fjármálastöðugleika að þá þurfum við auknar heimildir bara til að tryggja þjóðhagslegan stöðugleika. Ekki það, lífeyriskerfið er mjög gott og hefur staðist mjög vel að mörgu leyti. Það er hins vegar stærra en bankakerfið. Heildareignir lífeyrissjóðanna eru meiri en eignir bankanna,“ sagði Ásgeir. Hann nefndi einnig að það sé óheppilegt að mörgu leyti að eftirlit með lífeyrissjóðum sé á tveimur stöðum, bæði hjá fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, telur seðlabankastjóra gera of mikið úr samþykkisferli fjármálaráðuneytisins, sem löng hefð sé fyrir og rekja megi langt aftur.

„Ég held að það sé gott fyrir okkur að viðhalda þekkingu á málaflokknum á nokkrum stöðum innan stjórnsýslunnar. Þegar ein og sama stofnunin hefur samþykktarferlið, setur reglur, viðheldur stöðugleika og rækir eftirlitshlutverk með refsiheimildum kemur það sennilega ekki vel út fyrir mig að deila því með þeim að mínar hugsanir eru á sömu nótum og þeirra, að mögulega þurfi að brjóta upp Seðlabankann.“

Stærra iðgjald til Þýskalands en almennu sjóðanna

Á fundinum tók Gunnar Jakobsson undir orð Ásgeirs um aðgreiningu séreignarsparnaðar og skyldusparnaðar. Hann velti fyrir sér hvort það ætti að „brjóta upp“ kerfið þannig að séreignarsparnaður renni ekki í sömu sjóði og skyldusparnaður. Það valdi ákveðnum vandamálum varðandi stjórnarhætti og minntist hann sérstaklega á áhrif á eignarhald í íslenskum félögum og fjárfestingum.

„Þetta getur leitt til þess að tiltölulega smáir eigendur félaga verði ráðandi eigendur í félaginu af því að lífeyrissjóðirnir eru hinir hljóðlátu eigendur,“ sagði Gunnar.

Ólafur gagnrýnir þessa hugmynd Gunnars. „Það er kærkomið að fá upplýsingar um það sem starfsfólk Seðlabankans er að hugsa, samanber að brjóta kerfið upp af því að við erum svo hljóðlát og hlutlaus á markaði,“ segir hann með kaldhæðni tón. Það kunni að koma mörgum á óvart að markaðurinn hafi í raun þegar ákveðið sig.

„Markaðshlutdeild almennu lífeyrissjóðanna í séreignasparnaði er um 8% og í raun sýnist mér að dótturfélag Íslandsbanka hafi flutt stærra iðgjald til Þýskalands en almennu sjóðirnir veittu móttöku árið 2021,“ segir Ólafur og vísar þar til Allianz söluumboðsins á Íslandi sem er í eigu Íslandsbanka.