Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, gæti átt von á tæplega 100 milljóna evra kaupauka, eða sem nemur 15 milljörðum króna, ef hlutabréfaverð írska flugfélagsins lækkar ekki á næstu dögum.
O‘Leary mun tryggja sér kauprétti að andvirði 100 milljónir evra ef hlutabréfaverð flugfélagsins helst yfir 21 evru í 28 daga.
Gengi hlutabréfa Ryanair hefur verið yfir 21 evru síðan 2. maí síðastliðinn og stendur í tæplega 24 evrum þegar fréttin er skrifuð. Hlutabréf félagsins hefur hækkað um 6,5% frá birtingu ársuppgjörs fyrir opnun markaða í gær.
Samkvæmt kaupaukasamningi sem samþykktur var árið 2019 getur O‘Leary innleyst kauprétti að andvirði um 100 milljónir evra ef hlutabréfaverð Ryanair fer upp í 21 evru í 28 daga eða ef flugfélagið skilar 2,2 milljörðum evra eftir skatta á ársgrundvelli.
Tafir á Boeing vélum dempa vöxt Ryanair
Ryanair varaði í gær við að tekjuvöxtur írska lágfargjaldaflugfélagsins verði hægari en gert var ráð fyrir vegna tafa á afhendingum Boeing þota.
Uppfærðar áætlanir Ryanair gera ráð fyrir að farþegar félagsins á yfirstandandi fjárhagsári sem lýkur í mars 2026 muni fjölga um 3% frá fyrra ári og verða um 203 milljónir. Til samanburðar gerðu fyrri áætlanir félagsins ráð fyrir 215 milljónum farþega.
O‘Leary sagði á uppgjörsfundi að Boeing hefði afhent 29 færri flugvélar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hann sagðist þó hafa meiri trú en áður á að Boeing muni afhenda umræddar 29 737-8 vélar fyrir sumarið 2026 sem myndi gera Ryanair kleift að vinna upp fyrir tekjuvöxt sem félagið varð af.
Ryanair er stærsti viðskiptavinur Boeing í Evrópu. Írska flugfélagið hefur þurft að horfa upp á ítrekaðar tafir á afhendingum vegna vandræða hjá bandaríska flugvélaframleiðandanum sem hefur glímt við umfangsmikil verkföll og þurft að hægja á framleiðslulínum til að bæta framleiðsluferla.
„Ég held að Boeing sé virkilega að komast til botns í vandamálunum sínum,“ hefur Financial Times eftir O‘Leary.
Forstjórinn sagði að Ryanair og Boeing ættu í viðræðum um hvort félagið myndi borga brúsann vegna áformaðra tolla ESB á bandarískar flugvélar ef viðræður við bandarísk stjórnvöld bera lítinn árangur.
Hagnaður Ryanair á síðasta fjárhagsári, sem lauk í mars sl., nam 1,6 milljörðum evra og dróst saman um 16% milli ára. Afkoma félagsins var þó við efri mörk spá greinenda. Félagið rakti samdrátt í hagnaði að stærstum hluta til 7% lækkunar á meðalfargjöldum.