Ölgerðin hefur undirritað samninga sem fela í sér að félagið eignast 51% í vatnsútflutningsfyrirtækinu Iceland Spring hf., að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Ölgerðin átti fyrir 40% hlut í Iceland Spring en á grundvelli samninga við aðra hluthafa og Iceland Spring bætir Ölgerðin við sig 3% hlut með kaupum á hlutafé af öðrum hluthöfum og 8% með áskrift að nýju hlutafé sem félagið gefur út í tengslum við viðskiptin.
Greiðsla Ölgerðarinnar vegna viðskiptanna nemur samtals rúmlega 500 milljónum króna, eða sem nemur um 3,7 milljónum dala.
Eftir viðskiptin eru hluthafar Iceland Spring Ölgerðin 51%, Pure Holdings 31%, Three Amigos 13%, Iceland Water með 4% og Houston Point 1%. Iceland Spring verður með viðskiptunum hluti af samstæðu Ölgerðarinnar, en félagið hefur fram til þessa verið hlutdeildarfélag.
„Þetta er afar spennandi verkefni og aukið eignarhald Ölgerðarinnar mun án efa gefa Iceland Spring aukna vigt og slagkraft bæði í útflutningi og framleiðslu. Vatnið okkar fæst nú í yfir 35.000 verslunum úti í heimi og við sjáum fram á mikil vaxtartækifæri með okkar frábæra vatni,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Iceland Spring selur íslenskt vatn í Bandaríkjunum, Taílandi og Kína, þ.m.t. í verslunum 7-Eleven, Walgreens og Rite Aid.
Vatnsútflutningur Iceland Spring ehf. hefur tvöfaldast frá árinu 2020. Í tilkynningu Ölgerðarinnar segir að árið 2022 hafi verið það besta í rekstri félagsins þar sem velta var 2,5 milljarðar og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) félagsins nam um 250 milljónum króna.
Vaxtaberandi skuldir Iceland Spring eru um 400 milljónir króna eftir hlutafjáraukningu auk um 350 milljóna króna kröfu- og birgðafjármögnunar í Bandaríkjunum.
Ölgerðin sér um átöppun og aðra umsýslu fyrir Iceland Spring en félagið á vatnslind skammt frá Hólmsheiði. Ölgerðin á í viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíðar uppbyggingu á svæðinu. Á síðasta ári voru framleiddar 33 milljónir flaskna og er gert ráð fyrir söluaukningu á þessu ári.