Öl­gerðin Egill Skalla­gríms­son hf. hefur skrifað undir samning um kaup á öllu hluta­fé í Ankra ehf., fyrir­tæki sem hefur fram­leitt kolla­gen fyrir Öl­gerðina frá árinu 2019. Heildar­virði við­skiptanna nemur 600 milljónum króna.

Kolla­gen frá Ankra hefur verið notað við fram­leiðslu á drykknum Collab.

Áhrif kaupanna á EBITDA Öl­gerðarinnar á næsta fjár­hagsári eru áætluð um 100 milljónir króna, samkvæmt kauphallartilkynningu félagsins.

Stærsti eig­andi Ankra, Hrönn Margrét Magnús­dóttir, sem jafn­framt er fram­kvæmda­stjóri og einn af stofn­endum fyrir­tækisins, mun áfram vera til ráðgjafar fyrir Öl­gerðina og að­stoða við út­flutning á Collab næstu tvö árin.

Sam­kvæmt sam­komu­lagi mun Hrönn einnig halda áfram rekstri vöru­merkisins Feel Iceland sem hún keypti út úr Ankra, en Öl­gerðin mun hafa ótíma­bundinn rétt til notkunar á því við fram­leiðslu og markaðs­setningu á Collab.

„Það er afar ánægju­legt að samningar um kaup Öl­gerðarinnar á Ankra hafi náðst og við hlökkum til áfram­haldandi sam­starfs við Hrönn í þeirri veg­ferð að gera Collab enn stærra. Rúm sex ár eru síðan Hrönn bankaði upp á hjá okkur með þá hug­mynd að gera drykk sem inni­héldi kolla­gen sem unnið væri úr ís­lensku fisk­roði. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Collab selt meira en 40 milljónir dósa, unnið til alþjóð­legra verð­launa og vakið mikla at­hygli. Collab hefur verið fáan­legt í Dan­mörku um hríð og markaðssókn er að hefjast í Þýska­landi í vor,“ segir Andri Þór Guð­munds­son, for­stjóri Öl­gerðarinnar.

„Frá stofnun til dagsins í dag hefur Ankra notað yfir 2.500 tonn af fisk­roði, sem áður var hent og þannig aukið verðmæti hliðar­afurða ís­lenska fisksins tölu­vert við sköpun fyrsta flokks kolla­gen­vara. Við erum mjög stolt af því og þeim árangri sem Collab hefur náð á svo skömmum tíma í þessu árangurs­ríka sam­starfi. Það verður ánægju­legt að fylgjast með áfram­haldandi upp­byggingu Öl­gerðarinnar á Collab er­lendis og taka þátt í þeirri veg­ferð. Á sama tíma er ég spennt fyrir því að leggja áherslu mína á Feel Iceland og halda áfram að þróa sjálf­bærar kolla­gen fæðu­bóta­vörur af bestu gæðum úr ís­lensku fisk­roði og sjávar­afurðum,“ segir Hrönn Margrét Magnús­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Ankra.