Dótturfélag Ölgerðarinnar náð samkomulagi um kaup á A.Ó. eignarhaldsfélagi ehf., sem á vöruhús og skrifstofuhúsnæði að Köllunarklettsvegi 6, fyrir 1,6 milljarða króna að frádregnum vaxtaberandi skuldum.

Niðurstaða áreiðanleikakönnunar liggur fyrir og unnið er að gerð kaupsamnings, að því er kemur fram í uppgjörstilkynningu Ölgerðarinnar.

Dótturfélag Ölgerðarinnar náð samkomulagi um kaup á A.Ó. eignarhaldsfélagi ehf., sem á vöruhús og skrifstofuhúsnæði að Köllunarklettsvegi 6, fyrir 1,6 milljarða króna að frádregnum vaxtaberandi skuldum.

Niðurstaða áreiðanleikakönnunar liggur fyrir og unnið er að gerð kaupsamnings, að því er kemur fram í uppgjörstilkynningu Ölgerðarinnar.

Seljandinn er Á.Ó. eignarhaldsfélag ehf. sem er í eigu Sjónvarpsmiðstöðvarinnar ehf., systurfélags Heimilistækja. Endanlegir eigendur eru Hreinn Hlíðar Erlendsson og synir hans Ólafur Már, Birkir Örn og Hlíðar Þór. Heimilistæki keyptu heildverslunina Ásbjörn Ólafsson árið 2022.

Stjórn samþykkir 2.300 fermetra viðbyggingu

Húsnæðið, sem hýsti áður starfsemi Ásbjörns Ólafssonar, er samtals 2.300 fermetrar að stærð og því fylgir byggingarréttur fyrir aðra eins byggingu.

Stóreldhúsadeild Danól, dótturfélags Ölgerðarinnar, mun flytja starfsemi sína í húsnæðið um áramótin en fram kemur að hýsing og dreifing á þeim vörum hafi verið úthýst til þriðja aðila frá árinu 2019. Ölgerðin segir að með þessu sé hægt að veita viðskiptavinum betri þjónustu en nú er mögulegt og hagræða í rekstri.

„Þarna ætlum við að blása til sóknar,“ sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar á fjárfestakynningu í dag.

„Auk þess þá var samþykkt í stjórn áðan að ráðast þá í viðbyggingu á um 2.300 fermetra vöruhúsi þar sem við komum til með að byggja fullkominn frysti sem getur þá hýst þá starfsemi sem stóreldhúsin eru að framkalla. Við þurfum talsvert mikið pláss í frysti. Við getum þá flutt alla hýsinguna á matvörunni yfir í þetta húsnæði og bætt þá þjónustustigið okkar.“

Andri Þór áréttaði að þessi kaup hafi ekki áhrif á áform Ölgerðarinnar á nýju atvinnusvæði á Hólmsheiði. Sú uppbygging sem Ölgerðin áformar þar verði miðlægt vöruhús fyrir alla starfsemi félagsins. Þess heldur séu kaupin á Köllunarklettsvegi milliskref.

„Við teljum að þetta sé góð fjárfesting. Það er lítið framboð af vöruhúsum á Reykjavíkursvæðinu og þetta vöruhús er auðvitað einstaklega vel staðsett fyrir okkar starfsemi.“

Ölgerðin skrifaði á dögunum undir samning um lóð á Hólmsheiði sem er um 45 þúsund fermetrar. Þar áætlar Ölgerðin að reisa vatnsátöppunarverksmiðju fyrir Iceland Spring sem nýtir vatn úr nærliggjandi brunni og vörudreifingarmiðstöð.

„Þetta er frábært svæði til að byggja upp miðlægan lager og dreifingarmiðstöð. En það er í raun og veru algjör forsenda fyrir því, ef við horfum einhver 10 ár fram í tímann, að Ölgerðin haldi áfram sínum góða vexti,“ sagði Andri Þór á fundinum í dag.

„Þá er ætlunin að flytja lagerinn að framleiðsluvörunni upp eftir, skapa þannig pláss til þess að byggja og setja upp fleiri framleiðslulínur þar sem við getum þá farið í framleiðslu á annars konar drykkjarvöru og/eða í öðru formi.“

Andri Þór sagði Ölgerðina með þessum áformum vera að hugsa lengra fram á veginn. Félagið vilji hanna þannig vöruhús og drefingarmiðstöð að hún svari kalli nútímaviðskipta.

„Ef við ætlum að skara fram úr í samkeppni, þá þurfum við að vera með best rekna vöruhúsið með hagkvæmasta kostnaðinum og jafnframt besta þjónustustigið. Það er okkar metnaður að gera þarna á Hólmsheiði.“

Ölgerðin hefur fengið vilyrði fyrir 45 þúsund fermetra lóð á nýju atvinnu Hólmsheiði. Lóð Ölgerðarinnar er efst til hægri á teikningunni.