Ölgerðin hagnaðist um 930 milljónir króna á öðrum fjórðungi fjárhagsárs félagsins, sem náði frá 1. júní til 31. ágúst. Til samanburðar hagnaðist félagið um 1.190 milljónir á sama tímabili í fyrra. Ölgerðin birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Stjórnendur Ölgerðarinnar hafa ákveðið að lækka afkomuspá fyrir fjárhagsárið 2024 (1. mars 2024 – 28. febrúar 2025). Áður útgefin afkomuspá gerði ráð fyrir EBITDA á bilinu 5,1–5,5 milljarða króna en stjórnendur gera nú ráð fyrir EBITDA á bilinu 4,9–5,3 milljarðar.
Helstu forsendur í uppfærðri spá eru sagðar fyrirsjáanleg minni umsvif seinni hluta fjárhagsársins.
„Ytri aðstæður í þjóðfélaginu eru krefjandi um þessar mundir eins og flest öll fyrirtæki finna fyrir og Ölgerðin er þar engin undantekning. Minni neysla erlendra ferðamanna og það aðhald sem heimilin eru farin að sýna vegna efnahagsástandsins koma fram í þessu uppgjöri, en sterk staða vörumerkja fyrirtækisins kemur ennfremur í ljós,” segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í uppgjörstilkynningu.
Salan dróst saman um 0,4%
Vörusala samstæðunnar á fjórðungnum nam 12,7 milljörðum króna og dróst saman um 0,4% milli ára. EBITDA-hagnaður félagsins lækkaði um 14% frá sama tímabili í fyrra og nam 1,7 milljörðum króna.
„Ársfjórðungurinn litast af breyttum ytri aðstæðum sem skýrist aðallega af minni neyslu erlendra ferðamanna og Íslendinga almennt. Samdráttur var í seldum lítrum til hótela, veitingastaða og skyndibitastaða,“ segir í uppgjörstilkynningu Ölgerðarinnar.
Jafnframt segir að rekstrarumhverfi margra viðskiptavina félagsins hafi orðið erfiðara að undanförnu og megi það m.a. rekja til hækkana á aðföngum, launahækkana í síðustu kjarasamningum og minni sölu.
„Viðskiptakröfur Ölgerðarinnar eru samt sem áður nokkuð traustar og er ekki útlit fyrir stór áföll.“
Hefja markaðssetningu Collab í Þýskalandi
Ölgerðin segir að vel hafi tekist að halda aftur af ýmsum kostnaðarþáttum á fjórðungnum. Sölu- og markaðskostnaður og annar rekstrarkostnaður hafi staðið nokkurn veginn í stað milli ára þrátt fyrir að u.þ.b. 80 milljónum hafi verið varið í markaðsstarf vegna Collab á erlendum mörkuðum.
Fram kemur að sala á Collab í Danmörku hafi gengið samkvæmt áætlun en bestur árangur hafi náðst þar í landi.
„Á undanförnum mánuðum hefur Þýskalandsmarkaður verið skoðaður mjög ítarlega. Það er mat stjórnenda að Collab muni koma með nýnæmi inn á þann markað sem hentar viðskiptavinum og neytendum vel. Sá markaður er mjög stór og útlit fyrir að hann vaxi áfram á næstu árum. Því var tekin ákvörðun um að hefja markaðssetningu á Collab í Þýskalandi á næstu mánuðum.“