Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar hækkaði um rúm 3% í 307 milljón króna viðskiptum í dag.
Dagslokagengi Ölgerðarinnar var 18,7 krónur en gengið hefur verið að niðurleið síðustu daga eftir árshlutauppgjör í síðustu viku.
Samkvæmt kauphallartilkynningu Ölgerðarinnarí morgun hefur félagið undirritað samkomulag um helstu skilmála kaupa á 100% hlut í Gæðabakstri ehf.
Heildarvirði viðskiptanna er 3.454 milljónir króna og að frádregnum vaxtaberandi skuldum er áætlað kaupverð félagsins á afhendingardegi um 2.700 milljónir króna.
Ölgerðin hyggst reka Gæðabakstur sem sérstakt félag innan samstæðunnar. Þá verður Vilhjálmur Þorláksson áfram framkvæmdastjóri Gæðabaksturs.
Gengi Eimskips hækkaði einnig í viðskiptum dagsins er gengi gámaflutningafélagsins fór upp um tæp 4% í 438 milljón króna viðskiptum.
Dagslokagengi Eimskips var 470 krónur sem er um 22% hærra en fyrir mánuði síðan.
Fjárfestar vongóðir um loðnu?
Útgerðarfélögin Brim, Síldarvinnslan og Ísfélagið hækkuðu einnig öll á bilinu 1,5-2,5% í viðskiptum dagsins en Hafrannsóknarstofnun er nú í loðnuleit við Íslandsstrendur.
Samkvæmt Fiskifréttum Viðskiptablaðsins hefur fundist fín loðan í leiðangri Hafró en óvíst er með magnið.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,91% og var heildarvelta á markaði 5,4 milljarðar.