Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,78% í 3,2 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag.
Ölgerðin leiddi lækkanir á markaði en félagið birti árshlutauppgjör í gærkvöldi sem sýndi um 20% hagnaðarsamdrátt á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.
Stjórnendur Ölgerðarinnar ákváðu að lækka afkomuspá fyrir fjárhagsárið 2024 (1. mars 2024 – 28. febrúar 2025). Áður útgefin afkomuspá gerði ráð fyrir EBITDA á bilinu 5,1–5,5 milljörðum króna en stjórnendur gera nú ráð fyrir EBITDA á bilinu 4,9–5,3 milljörðum.
Helstu forsendur í uppfærðri spá eru sagðar fyrirsjáanleg minni umsvif seinni hluta fjárhagsársins.
Gengi Ölgerðarinnar lækkaði um 3,6% í um 67 milljón króna veltu. Dagslokagengið var 16,2 krónur og hefur ekki verið lægra síðan í febrúar.
Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar hefur þó enn hækkað um rúm 9% á árinu.
Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar lækkaði einnig um 3,5% í 73 milljón króna viðskiptum.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá hefur Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík, verið að selja bréf sín í Síldarvinnslunni en hann hefur selt hluti fyrir 281 milljón á síðustu tveimur vikum.
Hlutabréfaverð Brims lækkaði síðan um 3% í 56 milljón króna viðskiptum.
Gengi Sýnar lækkaði um 2,5% í örviðskiptum en gengi fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins hefur nú lækkað um 36% á árinu. Dagslokagengið var 30,2 krónur.