Ölgerðin hagnaðist um 3,3 milljarða króna á síðasta fjárhagsári sem lauk 29. febrúar síðastliðinn. Til samanburðar skilaði félagið 2,5 milljarða hagnaði á árinu þar áður.

Vörusala samstæðunnar nam 45,4 milljörðum og jókst um 18% milli ára. Framlegð jókst um 19,2% og nam 13,2 milljörðum.

„Velta það sem af er núverandi fjárhagsári er um 5% hærri en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir ágætan vöxt er ljóst að heldur er að hægja á þeim mikla vexti sem einkennt hefur síðast liðin þrjú ár,“ segir í tilkynningu Ölgerðarinnar.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) fjárhagsársins nam 5,5 milljörðum og jókst um 21% milli ára. Afkomuspá stjórnenda samstæðu Ölgerðarinnar fyrir fjárhagsárið 1. mars 2024 – 28. febrúar 2025 er 5,5-5,9 milljarðar króna.

„Rekstur Ölgerðarinnar á síðasta ári gekk afar vel og félagið festir sig enn í sessi sem öflugasta fyrirtækið á þessum markaði. Við hlustum á neytendur og þeir kunna ekki aðeins að meta rótgrónar vörur okkar sem eru fastagestir á heimilum Íslendinga, heldur tóku þeir afar vel í nýjar vörur okkar sem eru afrakstur nýsköpunar og vöruþróunar,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Þróunin í átt að minni skammtastærðum og sykurlausum virknidrykkjum

Í afkomutilkynningu félagsins kemur fram að 32% af veltuaukningu samstæðunnar megi rekja til þess að nú er Iceland Spring hluti af samstæðu Ölgerðarinnar. Þá var um 17% af veltuaukningu tilkominn vegna aukinnar bjórsölu og um 13% vegna aukinnar sölu á virknidrykkjum.

Meirihluti aukningar tekna kemur til vegna meiri drykkjarvörusölu en magnaukningin í seldum lítrum innanlands er ríflega 7%. Aukning í sölu fjölda eininga af framleiðsluvöru er 9,2%.

„Á þessum tölum má sjá að áframhaldandi þróun á markaði er í átt að minni skammtastærðum og sykurlausum virknidrykkjum.“

„Þessar vikurnar eru að koma nokkrar spennandi nýjungar. Má þar nefna Mist Uppbygging, sem er próteindrykkur með mátulegu magni af koffíni, og Collab Hydro sem er nútíma sportdrykkur fyrir íslenskar aðstæður. Innkoma Iceland Spring hefur sitt að segja og við erum afar spennt að sjá hversu góðar viðtökur Collab er að fá á erlendum mörkuðum,“ segir Andri Þór.

Útrásin hafin en mun taka tíma að festa vöruna í sessi

Sala á virknidrykknum Collab er hafin í Danmörku og Finnlandi en áður hafði staðið yfir tilraunasala í Noregi. Í tilkynningu Ölgerðarinnar segir að góð dreifing sé á drykknum og sala gangi samkvæmt áætlunum.

Nokkrar af stærstu smásölukeðjum Danmerkur hafa tekið Collab í sölu meðal annars 7-Eleven, Netto, Fötex og Bilka. Í Finnlandi verður Collab til sölu um allt land í verslunum K-Citymarket og K-Supermarket ásamt völdum verslunum K-Market.

„Áætlanir gera ráð fyrir að töluverðan tíma taki að festa vöruna í sessi og ná hlutdeild á mörkuðum,“ segir í tilkynningunni. „Markaðsvinna er nú í gangi og undirbúningur er að hefjast vegna þriggja annarra markaða.“