Fasteignafélagið Kaldalón hefur gengið frá samningum um kaup á hluta fasteignar við Víkurhvarf 1 í Kópavogi, sem Kaldalón átti fyrir meirihluta í, og fasteign við Þverholt 1 í Mosfellsbæ fyrir 850 milljónir króna af félögum í eigu Óla Vals Steindórssonar. Kaldalón, sem er skráð á First North-markaðinn, tilkynnti þetta í gærkvöldi.
Leigutekjur þessara eigna nema 82 milljónum króna á ári og áætlað er að rekstrarhagnaður (NOI) Kaldalóns aukist um 61 milljónir á ársgrundvelli eftir viðskiptin. Fasteignirnar eru báðar í fullri útleigu. Áætlað er að afhending fari fram 31. ágúst næstkomandi eða fyrr.
Meðal leigjenda við Víkurhvarf 1 er heildsalan Core, sem flytur meðal annars inn koffín- og orkudrykkina Nocco. Veitingastaðurinn Barion Mosó, sem er í eigu Óla Vals, er til húsa í Þverholti 1 en áður var útibú Arion banka í húsinu.
Fasteignafélagið greiðir fyrir eignirnar með reiðufé að fjárhæð 450 milljónir og útgáfu hlutafjár í Kaldalóni að fjárhæð 400 milljónir sem miðast við meðalgengi tíu viðskiptadaga fyrir samþykkt kauptilboðs, eða 1,76 krónur á hlut.
Sjá einnig: Kaldalón kaupir Hæðasmára 2-6 á milljarð
Kaldalón tilkynnti einnig í gær um samtals eins milljarðs króna kaup á Hæðasmára 2 og 4 af dótturfélögum Skeljar fjárfestingarfélags og Hæðasmára 6 af Kili fasteignum, sem er í eigu Guðmundar Inga Jónssonar og Þorláks Traustasonar.