Verðbólgan hefur verið þrálát síðustu misseri og mælst yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá því í maí 2020.

„Verðbólga og háir vextir eru ein helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir, hvort tveggja hefur mikil áhrif á rekstur fyrirtækja og rekstur heimila landsins," segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA).  

„Verðbólga dregur úr kaupmætti og samkeppnishæfni, háir vextir auka kostnað og draga úr fjárfestingum. Núverandi staða er einfaldlega ólíðandi. Þegar verðbólga mælist um 8% og stýrivextir eru 9,25% þá þurfa allir að leggjast á eitt, þar er enginn undanskilin, hvorki ríki né sveitarfélög."

Sigríður Margrét segir Samtök atvinnulífsins ítrekað hafa gagnrýnt að aðhald í opinberum rekstri hafi ekki verið nægjanlegt.

„Verja hefði átt óvæntum tekjum ríkisins til niðurgreiðslu skulda, eða stuðla að bættri afkomu í stað þess að stofna til nýrra eða aukinna útgjalda.“

Að sögn Sigríðar Margrétar var íslenska hagkerfið síðast í jafnvægi árið 2019.

„Hagvöxtur var þá í ágætu samræmi við langtíma hagvaxtargetu þjóðarbúsins, verðbólga nálægt markmiði og atvinnuleysi lítið. Frá þeim tíma hefur ýmislegt dunið á íslenskum efnahag og um þessar mundir ríkir talsverð óvissa um efnahagsframvinduna. Hagvöxtur var mikill í upphafi ársins en síðan hefur hægt á honum, laun hafa hækkað mikið og það eru enn vísbendingar um spennu á vinnumarkaði.“

Hún segir að þegar horft sé á atvinnulífið í heild sinni þá skipti stöðugleiki og samkeppnishæfni hvað mestu máli þegar komi að fyrirtækjarekstri. Einnig sé fyrirsjáanleiki mikilvægur almenningi.

„Þróttmikið og fjölbreytt atvinnulíf, ábyrg ríkisfjármál og skynsamlegir kjarasamningar eru líklegri til þess að færa okkur stöðugleika, lægra og fyrirsjáanlegra vaxtastig.“

Rætt er við Sigríði Margréti í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.