Tinna Finnbogadóttir, sérfræðingur á skrifstofu fjármálamarkaða hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, segir lífeyrissjóði yfirleitt kveða á um að bætur frá almannatryggingum skerði örorkulífeyri. „Greiðslur örorkulífeyris frá lífeyrissjóði skerða ekki örorkulífeyri frá almannatryggingum, en lífeyrissjóðirnir hafa almennt þann háttinn á að örorkulífeyririnn skerðist ef fólk fær bætur frá ríkinu.“
Örorkubyrði er ólík á milli sjóða og það hefur áhrif ef stór hópur sjóðfélaga borgar ekki alla starfsævina í sjóðinn en fær réttindi eins og hann hafi gert það. „Sumir sjóðir telja sig ekki geta boðið upp á val í lífeyrissparnaði því óskipt greiðsla skylduiðgjaldsins í samtrygginguna rétt nægir til að standa undir samtryggingarhluta þeirra.“
Tinna nefnir að ríkið hafi greitt tæpa 5 milljarða króna árið 2021 í jöfnun örorkubyrði milli lífeyrissjóða. „Tæplega 30% af greiðslum til öryrkja koma úr lífeyrissjóðunum og rúmlega 70% frá ríkinu. Það eru eitthvað um 50 milljarðar sem ríkið er að greiða í örorkubætur auk þessara 5 milljarða sem fara í að jafna örorkubyrðina. Ríkið er því að greiða um 10% í viðbót við örorkubæturnar, til að jafna út örorkubyrði lífeyrissjóða.“
Hún segir þetta vera eina af áskorununum sem kerfið standi frammi fyrir. Þegar kemur að greiðslum til öryrkja sé kerfið ógagnsætt og óskilvirkt þegar meirihluti bótanna komi frá ríkinu, minnihluti frá lífeyrissjóðunum, en hluti af því sem komi frá þeim sé bættur upp af ríkinu.
„Mismunandi örorkubyrði á milli sjóðanna hefur áhrif á fjárhagsstöðu þeirra og möguleika til að bjóða upp á mismunandi sparnaðarleiðir. Ein leið til að leysa það væri að enginn örorkulífeyrir væri greiddur úr lífeyrissjóðunum, einungis ellilífeyrir. Ef það myndi hækka örorkugreiðslur frá ríkinu væri mögulegt að fjármagna þá aukningu með skatttekjum og lækka á móti hlutfall launa sem greitt er í lífeyrissjóð. Önnur leið væri að auka frelsi til vals á lífeyrissjóðum sem myndi að öllum líkindum leiða til betri dreifingar örorkubyrðarinnar milli sjóða.“
Fréttin er hluti af lengir umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 3. nóvember.