Hlutfall heimila sem fjármagna húsnæðiskaup með óverðtryggðum lánum hækkaði hratt eftir að vextir Seðlabankans lækkuðu mikið í kjölfar heimsfaraldurs. Samkvæmt gögnum Seðlabankans hefur hlutfallið lækkað á ný á síðustu 1-2 árum, í kjölfar vaxtahækkana.

Skiptar skoðanir eru á því hversu mikil áhrif það hefur á miðlun peningastefnunnar að heimilin séu að flykkjast aftur í verðtryggð lán. Því hefur verið haldið fram af málsmetandi mönnum, þar á meðal seðlabankastjóra, að slík þróun hindri miðlun peningastefnunnar, þar sem hærri vextir hafi þá ekki eins mikil áhrif á einkaneyslu og eftirspurn til skamms tíma.

Í rammagrein í riti peningamála Seðlabankans frá því í júní í fyrra, sem Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur bankans kynnti á sínum tíma, er fjallað um samband hærri stýrivaxta og val heimila á formi húsnæðislána.

Í samantekt greinarinnar segir að þrátt fyrir að hærri vextir leiði til þess að heimilin færi sig úr óverðtryggðum í verðtryggð húsnæðislán virðist sú tilfærsla „ekki hafa sjáanleg áhrif á getu peningastefnunnar til að hafa áhrif á eftirspurn og útgjaldaákvarðanir heimila“.

Peningastefnan hafi þannig ekki einungis áhrif á einkaneyslu og eftirspurn með því að breyta húsnæðislánakjörum heimila. Hærri vextir leiði t.d. til lækkandi eignaverðs og dragi úr vilja banka til að lána fé. Hærri vextir hafi einnig áhrif á stöðu fyrirtækja og ráðningar- og fjárfestingaráform þeirra, bæði í gegnum hærri fjármagnskostnað og lækkun eignaverðs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. miðvikudag, 7. febrúar.