Greiðslubyrði verðtryggðra íbúðalána Lífeyrissjóðs verslunarmanna með breytilegum vöxtum gæti tvöfaldast um næstu mánaðarmót eftir að sjóðurinn tilkynnti um vel yfir tvöföldun þeirra síðastliðinn föstudag úr 0,86% í 1,99%.

Fastir verðtryggðir vextir til fimm ára hækkuðu við sama tilefni um ríflega helming, úr 1,8% í 2,74%.

Áhrifanna hefur þó lítið gætt á íbúðalánamarkaði enn sem komið er ef frá er talinn Lífeyrissjóður verslunarmanna, og lífeyrissjóðirnir virðast hafa afar ólík viðmið hvað vaxtakjör verðtryggðra íbúðalána varðar.

Héldu vöxtum föstum í 1,4%

Hjá Almenna lífeyrissjóðnum voru fastir verðtryggðir vextir til þriggja ára hækkaðir úr 1,2 í 1,5% á miðvikudaginn í síðustu viku, tveimur dögum fyrir hækkun Live, og Frjálsi ákvað fyrir tveimur vikum að halda breytilegum verðtryggðum vöxtum óbreyttum í 1,4%, á meðan Brú hækkaði sína breytilegu úr 1,3% í 1,5%. Ávöxtunarkrafa stysta ríkisskuldabréfaflokksins, RIKS 26 sem er á gjalddaga eftir um það bil þrjú og hálft ár, hefur hins vegar hækkað um rúmt hálft prósentustig síðan ákvörðun Frjálsa var tekin.

Vaxtaákvarðanir flestra lífeyrissjóða eru nokkuð stopular í samanburði við bankana, sem breyta vöxtum einfaldlega þegar þeir telja tilefni til. Sumir sjóðir, þar með talinn Live, funda mánaðarlega um vaxtaákvarðanir en aðrir ársfjórðungslega, eins og í tilfelli Frjálsa.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.