Olís mun opna sína fyrstu bílaþvottastöð í desember undir merkinu Glans. Fyrsta stöðin verður við Langatanga í Mosfellsbæ en stefnt er að því að opna fleiri stöðvar á næsta ári.

„Glans er liður í því að bæta við eftirsóknarverðum þjónustuþáttum á stöðvum Olís,“ segir í fjárfestakynningu Haga, móðurfélags Olís.

Þar segir að lögð verði áhersla á hraða þjónustu án þess að gæðum sé fórnað. „Afkastageta þvottastöðva félagsins verður mikil.“

Hagar segja að þvottastöðvarnar verði umhverfisvænar. Um sé að ræða „næstu kynslóð af snertilausum bílaþvotti – sérstaklega er hugað að sjálfbærni í notkun efna og orku“.