Olís, dótturfélag Haga, og Takk Hreinlæti undirrituðu í dag samning um kaup Takk Hreinlætis á öllu hlutafé Mjallar Friggjar. Kaupin eru gerð með fyrirvara um afstöðu Samkeppniseftirlitsins.
Mjöll Frigg á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1929 og er einn stærsti framleiðandi landsins á hreinlætis- og efnavörum. Félagið býr yfir áratugareynslu í að veita iðnaði og öðrum stórnotendum þjónustu innan umræddra vöruflokka og hefur þróað sín hreinlætisefni og efnavörur eftir þörfum hverju sinni. Tekjur félagsins námu um 720 milljónum króna árið 2021 og voru ársverk 12 talsins.
Takk Hreinlæti er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1994 og hefur verið í eigu sömu aðila frá upphafi. Félagið sérhæfir sig í sölu á ýmsum hreingerningar- og hreinlætisvörum, búsáhöldum og öðrum sérvöruflokkum. Félagið er að mestu í eigu Ásgeirs Ásgeirssonar og Margrétar Lillýjar Árnadóttur.
Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Olís:
„Salan er áframhaldandi liður í einföldun rekstrar Olís og ríkari áherslu á kjarnastarfsemi félagsins. Olís og önnur félög undir hatti Haga munu áfram eiga gott samstarf við Mjöll Frigg um framleiðslu og endursölu ýmissa hreinsi- og efnavara. Nýjum eigendum er óskað til hamingju með kaupin og jafnframt er starfsfólki Mjallar Friggjar þakkað samstarfið á undanförnum árum.”
Ásgeir Ásgeirsson, stjórnarformaður Takk Hreinlætis:
„Við sjáum mikla möguleika í þessum kaupum og í þeim felast mikil tækifæri fyrir okkur. Í félaginu liggur mikil reynsla á traustum grunni og vörur þess eru þekktar á markaðinum. Félagið hefur verið brautryðjandi í framleiðslu á hreinlætisvörum á markaðinum í 92 ár. Við hlökkum til verkefnisins og munum á næstu mánuðum ná að breikka vöruúrval okkar umtalsvert. Með kaupunum ætti ársvelta okkar samstæðu að verða um og yfir 1.100 milljóna króna og við lítum framtíðina björtum augum.“