Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir flokkinn hlynntan skynsamlegri nýtingu auðlinda landsins og það eigi sannarlega við um olíu og gas finnist það í vinnanlegu magni.
„Flokkurinn hefur talað fyrir olíu- og gasleit fyrir kosningar og á milli þeirra og beitti sér hart gegn þeim gölnu hugmyndum síðustu ríkisstjórnar að banna rannsóknir á þessu sviði,“ segir Sigmundur Davíð. „Eftir því sem ég kemst næst var það í fyrsta skipti sem stjórnvöld lögðu til bann við rannsóknum."
Viðskilnaður milli orðræðu og innihalds
„Fyrri rannsóknir þóttu lofa góðu og Norðmenn vildu vera með til að tryggja sér þau 25% sem þeir áttu rétt á samkvæmt samningi þjóðanna," segir Sigmundur Davíð. „Leit var hins vegar hætt þegar Norðmenn og fyrir vikið Kínverjar drógu sig út úr verkefninu. Það var gert þegar norska ríkisstjórnin þurfti um tíma að reiða sig á stuðning smáflokksins Venstre sem gerði það að skilyrði fyrir stuðningi við stjórnina að hætt yrði við ný leitarverkefni.
Fyrir og eftir þann tíma hafa Norðmenn hins vegar gefið út leitarleyfi eins og enginn væri morgundagurinn. Ég hugsa að þau séu orðin vel yfir 100 frá tímabundna stoppinu. Það kemur væntanlega engum á óvart að Norðmenn einbeiti sér að svæðum þar sem þeir eiga 100% rétt á meðan áhugi íslenskra stjórnvalda er minni en enginn.
„Þetta olíu- og gasmál er gott dæmi um hvernig umbúðamennska hefur náð tökum á íslenskum stjórnmálum," segir Sigmundur Davíð. „Það er víða orðinn algjör viðskilnaður milli orðræðu og innihalds.
Það má minna á það þegar Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, kastaði fram þeirri hugmynd, rétt fyrir kosningar 2009, að e.t.v. ættu Íslendingar ekki að nýta þessa hugsanlegu auðlind. Þann sama dag var skotið á neyðarfundi í þingflokki VG og fjölmiðlum svo tilkynnt að orð ráðherrans lýstu alls ekki afstöðu VG. Nú erum við kominn í ástand þar sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til bann við rannsóknum."
Íslenska gasið best
„Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að orkuþörf heimsins mun um fyrirsjáanlega framtíð aukast um u.þ.b. 2% á ári eins og hún hefur gert í meira en 40 ár. Því verður ekki mætt með þeim endurnýjanlegu orkugjöfum sem fyrir eru. Það þyrfti að þekja landsvæði sem nemur sjöföldu flatarmáli Íslands árlega með vindmyllum til að ná því en auk þess þyrfti aðra orku til að framleiða og flytja vindmyllurnar.
Ef það á að vera hægt að draga úr kolanotkun mun þurfa meiri olíu og sérstaklega náttúrugas sem er umhverfisvænst af jarðefnaeldsneytinu. Ég held að íslenska gasið hljóti að vera best."
„Bara leit að olíu og gasi myndi strax hafa mikil og jákvæð áhrif fyrir landið, sérstaklega Norður- og Austurland þar sem þörf er á aukinni uppbyggingu og mótvægi við höfuðborgarsvæðið.
Hinn kosturinn er að einbeita sér að eigin skinhelgi og láta Sádí Arabíu, Venesúela, Katar, Rússland og önnur lönd bara um þetta og halda áfram að vega að íslenskri verðmætasköpun með enn auknum bönnum og hærri gjöldum.
Ísland hefur staðið sig frábærlega í umhverfismálum og á að gera það áfram en ekki með því að halda að Ísland sé allur heimurinn.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.