Olíu­fyrir­tækið Equ­in­or, sem er í meiri­hluta­eigu norska ríkisins, á nú um 9,8% hlut í Ørsted, stærsta orku­fyrir­tæki Dan­merkur.

Equ­in­or greindi í morgun frá 41,2 milljóna danskra króna við­skiptum og opin­beraði um leið að sjóðurinn hefði verið að stækka stöðu sína undan­farna mánuði.

Olíu­fé­lagið greindi frá því að eignar­hlutur þess væri kominn í 9,8% að svo stöddu en ekki stæði til að fara yfir 10% hlut.

Samkvæmt Børsen er eignarhlutur olíufélagsins í Ørsted metinn á 17 milljarða danskra króna sem samsvarar um 338 milljörðum íslenskra króna.

Olíu­fé­lagið er þar með orðinn næst­stærsti hlut­hafi Ørsted á eftir danska ríkinu.

Hluta­bréfa­verð Ørsted rauk upp um 8% þegar greint var frá stöðu­tökunni en hefur síðan þá dalað ör­lítið. Hluta­bréfa­verð Equ­in­or lækkaði um 2%.

Ørsted hefur verið í teljandi fjár­hags­vand­ræðum á síðustu árum, sér í lagi vegna vind­myllu­verk­efna í Banda­ríkjunum sem ekki hafa náð fram að ganga.

Orku­fyrir­tækið þurfti aftur að af­skrifa milljarða á öðrum árs­fjórðungi í ár eftir að hafa þurft af­skrifa 26,8 milljarða danskra króna, eða um 546 milljarða ís­lenskra króna, síðasta haust.

Af­skriftirnar eru að mestu leyti til­komnar vegna vind­myllu­verk­efna fyrir­tækisins í Banda­ríkjunum.

Fjárfestar í Danmörku höfðu vonast eftir meiri ró yfir rekstri orkufyrirtækisins í ár en afskriftir annars ársfjórðungs námu 3,9 milljörðum danskra króna eða um 79 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.

Tap félagsins á fyrri árshelmingi nam 1,7 milljörðum danskra króna.

Verk­efnið Re­volution Wind eða Vind­byltingin er þó enn á dag­skrá í Banda­ríkjunum þrátt fyrir að vera í tölu­verðum fjár­hags­vand­ræðum.

Um er að ræða vind­myllu­verk­efni rétt fyrir utan austur­strönd Banda­ríkjanna en fram­kvæmdir áttu að hefjast í haust en hefur verið seinkað.

Ørsted sérhæfir sig í vindmyllum á sjó.
Ørsted sérhæfir sig í vindmyllum á sjó.

Á­ætlað er að vind­myllurnar vestan­hafs verði teknar í notkun árið 2026 fremur en 2025 eins og stóð til.

Þessi seinkun ein og sér olli því að fé­lagið varð að af­skrifa 2,1 milljarð danskra króna á síðasta fjórðungi.

Fullmeðvitaður um vindmylluvandræðin

Anders Ope­dal for­stjóri Equ­in­or segir í til­kynningu í dag að fé­lagið sé full­með­vitað um vand­ræði Ørsted á vind­myllu­markaðinum.

„Vind­myllu­iðnaðurinn er að takast á við tölu­verðar á­skoranir en við erum sann­færð um að lang­tíma­horfur séu góðar og að vind­myllur leiki lykil­hlut­verk í orku­skiptum,“ segir Ope­dal.

Hann greindi jafn­framt frá því að Equ­in­or sé á­nægt með stefnu Ørsted og styðji stjórn og fram­kvæmda­stjóra fé­lagsins, Mads Nipper. Equ­in­or mun ekki sækjast eftir því að fá sæti í stjórn fé­lagsins.

Sam­kvæmt greiningar­aðilum sem Børsen ræddi við snúast kaup Equ­in­or um um­hverfis­lega og fjár­hags­lega sniðuga fjár­festingu.

„Þetta er merki um að Equ­in­or trúir enn á grænu byltinguna,“ Klaus Kehl, greiningar­aðili hjá Nykredit, sem bætir við að hluta­bréfa­verð fé­lagsins hafi verið á niður­leið síðustu þrjú, fjögur árin.

„Að hluta til er verið að kaupa í fé­laginu því þeir telja markaðs­virðið lægra en raun­virði fé­lagsins en þetta snýst einnig um sjálf­bærni. Equ­in­or er tölu­vert svartara en grænt og því ekki ó­sniðugt að fjár­festa í grænni orku,“ segir Jacob Peder­sen hluta­bréfa­greinandi hjá S­yd­bank.