Olíufyrirtækið Equinor, sem er í meirihlutaeigu norska ríkisins, á nú um 9,8% hlut í Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur.
Equinor greindi í morgun frá 41,2 milljóna danskra króna viðskiptum og opinberaði um leið að sjóðurinn hefði verið að stækka stöðu sína undanfarna mánuði.
Olíufélagið greindi frá því að eignarhlutur þess væri kominn í 9,8% að svo stöddu en ekki stæði til að fara yfir 10% hlut.
Samkvæmt Børsen er eignarhlutur olíufélagsins í Ørsted metinn á 17 milljarða danskra króna sem samsvarar um 338 milljörðum íslenskra króna.
Olíufélagið er þar með orðinn næststærsti hluthafi Ørsted á eftir danska ríkinu.
Hlutabréfaverð Ørsted rauk upp um 8% þegar greint var frá stöðutökunni en hefur síðan þá dalað örlítið. Hlutabréfaverð Equinor lækkaði um 2%.
Ørsted hefur verið í teljandi fjárhagsvandræðum á síðustu árum, sér í lagi vegna vindmylluverkefna í Bandaríkjunum sem ekki hafa náð fram að ganga.
Orkufyrirtækið þurfti aftur að afskrifa milljarða á öðrum ársfjórðungi í ár eftir að hafa þurft afskrifa 26,8 milljarða danskra króna, eða um 546 milljarða íslenskra króna, síðasta haust.
Afskriftirnar eru að mestu leyti tilkomnar vegna vindmylluverkefna fyrirtækisins í Bandaríkjunum.
Fjárfestar í Danmörku höfðu vonast eftir meiri ró yfir rekstri orkufyrirtækisins í ár en afskriftir annars ársfjórðungs námu 3,9 milljörðum danskra króna eða um 79 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Tap félagsins á fyrri árshelmingi nam 1,7 milljörðum danskra króna.
Verkefnið Revolution Wind eða Vindbyltingin er þó enn á dagskrá í Bandaríkjunum þrátt fyrir að vera í töluverðum fjárhagsvandræðum.
Um er að ræða vindmylluverkefni rétt fyrir utan austurströnd Bandaríkjanna en framkvæmdir áttu að hefjast í haust en hefur verið seinkað.
Áætlað er að vindmyllurnar vestanhafs verði teknar í notkun árið 2026 fremur en 2025 eins og stóð til.
Þessi seinkun ein og sér olli því að félagið varð að afskrifa 2,1 milljarð danskra króna á síðasta fjórðungi.
Fullmeðvitaður um vindmylluvandræðin
Anders Opedal forstjóri Equinor segir í tilkynningu í dag að félagið sé fullmeðvitað um vandræði Ørsted á vindmyllumarkaðinum.
„Vindmylluiðnaðurinn er að takast á við töluverðar áskoranir en við erum sannfærð um að langtímahorfur séu góðar og að vindmyllur leiki lykilhlutverk í orkuskiptum,“ segir Opedal.
Hann greindi jafnframt frá því að Equinor sé ánægt með stefnu Ørsted og styðji stjórn og framkvæmdastjóra félagsins, Mads Nipper. Equinor mun ekki sækjast eftir því að fá sæti í stjórn félagsins.
Samkvæmt greiningaraðilum sem Børsen ræddi við snúast kaup Equinor um umhverfislega og fjárhagslega sniðuga fjárfestingu.
„Þetta er merki um að Equinor trúir enn á grænu byltinguna,“ Klaus Kehl, greiningaraðili hjá Nykredit, sem bætir við að hlutabréfaverð félagsins hafi verið á niðurleið síðustu þrjú, fjögur árin.
„Að hluta til er verið að kaupa í félaginu því þeir telja markaðsvirðið lægra en raunvirði félagsins en þetta snýst einnig um sjálfbærni. Equinor er töluvert svartara en grænt og því ekki ósniðugt að fjárfesta í grænni orku,“ segir Jacob Pedersen hlutabréfagreinandi hjá Sydbank.