Verð á framvirkum samningum með hráolíu hefur lækkað töluvert í dag eftir að Samtök olíuframleiðsluríkja OPEC+ frestuðu óvænt fundarhöldum sem áttu að hefjast á sunnudaginn næsta.

Verð á framvirkum samningum með hráolíu hefur lækkað töluvert í dag eftir að Samtök olíuframleiðsluríkja OPEC+ frestuðu óvænt fundarhöldum sem áttu að hefjast á sunnudaginn næsta.

Fundinum var frestað um fjóra daga, fram til 30. nóvember. Í umfjöllun Reuters segir að frestunin veki upp spurningar um hvort OPEC+ ríkin muni ráðast í jafnmiklar framleiðsluskerðingar og áður var talið.

Verð á framvirkum samningum með Brent og WTI hráolíu hafa lækkað um 2,2-2,4% í dag. Verð á Brent tunnu stendur nú í 80,5 dölum en til samanburðar var það rétt undir 83 dölum í byrjun vikunnar.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun vikunnar hækkaði olíuverð talsvert vegna væntinga um að OPEC+ ríkin myndu sammælast um að draga frekar úr olíuframleiðslu á umræddum fundi.

Sádi Arabía, Rússland og aðrir meðlimir OPEC+ höfðu þegar heitið því að draga úr framleiðslu um sem nemur samtals 5,16 milljónum tunna á dag, eða um 5% af daglegri olíueftirspurn á heimsvísu, frá seinni hluta síðasta árs.

Sádar að hóta aukinni framleiðslu?

Bloomberg greindi fyrst frá því í dag að fundinum yrði mögulega frestað um tiltekinn tíma í ljósi þess að erfiðleika í viðræðum Sádi Arabíu við önnur OPEC+ ríki. Samtökin hafa staðfest að fundinum hefur verið frestað.

Í umfjöllun Financial Times segir að afrísku aðildarríkin Angóla og Nígería hafi verið hikandi við að skerða framleiðslu. Haft er eftir greinanda að Sádi Arabía hafi í gegnum tíðina oft hótað að auka olíuframleiðslu við slíkar aðstæður.