Sádi Arabía og aðrir olíuframleiðendur innan OPEC+ samtakanna eiga nú í viðræðum um að auka framleiðslu um allt að 500 þúsund tunnur á dag að sögn fulltrúa ríkjanna.
OPEC+ ríkin funda þann 4. desember næstkomandi, degi áður en fyrirhugað sölubann Evrópubandsins á rússneska olíu og verðþak G7 ríkjanna á rússneska hráolíu taka gildi.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að þetta sé óvanalegur tími fyrir olíuframleiðendur til að íhuga framleiðsluaukningu en heimsverð á olíu hefur lækkað um meira en 10% frá því í byrjun nóvember.
Olíuverð lækkað um 5%
Olíuverð hefur lækkað um ríflega 5% í dag og verð á tunnu af Brent hráolíu er nú í kringum 83 dalir. Financial Times segir að Brent hafi farið niður í 82,79 dali þegar mest lét en verðið hefur ekki farið svo lágt síðan í janúar, fyrir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar.
Fari svo að OPEC+ ríkin auki framleiðslu, væri um að ræða stefnubreytingu frá því í haust þegar olíuframleiðendurnir komust að samkomulagi að draga úr framleiðslu um 2 milljónir tunna á dag.
Ríkisstjórn Biden sagði í haust að ákvörðun OPEC+ ríkjanna um að draga úr framleiðslu græfi undan aðgerðum gegn Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.