Hráolíuverð hefur lækkað um tæplega 4% í dag, sem er m.a. rakið til fregna um að stjórnmálaöfl í Líbíu séu að nálgast samkomulag sem hefði í för með sér að olíuframleiðsla í austurhluta landsins gæti farið á fullt og útflutningur hafist á ný. Reuters greinir frá.
Markaðsverð á tunnu af Brent hráolíu hefur lækkað um meira en 4% í dag og stendur nú í 74 dölum. Verðið á Brent tunnu hefur ekki verið lægra síðan í desember 2023.
Hráolíuverð hefur lækkað talsvert undanfarna daga meðal annars vegna áhyggja um stöðu kínverska hagkerfisins, sem er stærsti innflytjandi hráolíu heiminum. Framleiðslustig í Kína náði sínu lægsta stigi í hálft ár í ágúst samkvæmt hagtölum sem birtar voru um helgina. Auk þess hafa fulltrúar Opec+ ríkjanna hafa gefið til kynna að samtökin hyggist auka olíuframleiðslu í október.
Viðskiptablaðið fjallaði um það fyrir viku að verð á Brent hráolíu fór yfir 81 dal á tunnu eftir að stjórnvöld í austanverðri Líbíu gáfu það út að dregið yrði verulega úr olíuframleiðslu á stjórnsvæði sínu og olíuútflutningur yrði stöðvaður tímabundið. Bróðurparturinn af olíuframleiðslunni í Líbíu er í austurhluta landsins.
Bloomberg hafði eftir seðlabankastjóra Líbíu, Sadiq Al-Kabir, í dag að það væru sterkar vísbendingar um að stjórnmálaöfl í landinu væru að nálgast samkomulag sem myndi leysa úr núverandi stöðu.