Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað fyrir tveimur vikum að lækka stýrivexti um 0,5 prósentur, niður í 8,5%.

Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var klukkan 16 í dag, kemur fram allir nefndarmenn peningastefnunefndarinnar hafi samþykkt tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að lækka vexti um 50 punkta.

„Nefndin taldi að þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar yfir markmiði kölluðu á varkárni. Áfram þyrfti því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma. Mótun peningastefnunnar næstu misseri myndi sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Í fundargerðinni kemur fram að nefndin hafi verið sammála um að taumhald peningastefnunnar hefði aukist undanfarið. Einnig hafi komið fram að hækkun verðtryggðra vaxta á húsnæðislánum viðskiptabankanna og hert lánaskilyrði myndu væntanlega áfram draga úr umsvifum á húsnæðismarkaði auk þess sem greiðslubyrði af lánum færi vaxandi hjá þeim hluta heimila sem stæði frammi fyrir endurskoðun vaxtaskilmála.

„Fram kom að næsti reglulegi fundur nefndarinnar yrði ekki fyrr en á nýju ári og taldi nefndin að svigrúm væri til að taka stærra skref til lækkunar vaxta og viðhalda um leið hæfilegu aðhaldsstigi til þess að styðja við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og draga úr framleiðsluspennu á komandi misserum. Útlit væri þó fyrir að taumhald peningastefnunnar þyrfti áfram að vera þétt.“