Matvælastofnun tilkynnti í gær að henni hafa nú borist lokaniðurstöður rannsókna Tilraunastöðvar HÍ að Keldum á öllum sýnum sem rannsökuð voru í tengslum við niðurskurð á bænum Syðri-Urriðaá í Miðfirði. Stofnunin tilkynnir að öll sýnin reyndust vera neikvæð.

Niðurskurðurinn var skipaður eftir að kind á bænum sem keypt hafði verið árið 2020 frá bænum Bergsstöðum reyndist vera með riðu. Þeirri kind var lógað í tengslum við smitrakningu eftir að riðagreindist á Bergsstöðum.

Matvælastofnun greindi frá því í lok maí að riða hafi verið staðfest í aðeins 6% sýna frá Bergsstöðum sem gaf til kynna að útbreiðsla riðuveiki í Miðjarðarhólfi hafi verið minni en búist var við.

Riðuveiki veldur sársaukafullum taugaskaða í miðtaugakerfi sauðfjár og getur meðgöngutími riðuveiki verið mörg ár. Oftast ekki hægt að greina smitefnið í heilasýnum fyrr en mörgum árum eftir að kindin smitast og það er ekki fyrr en stuttu áður en einkenni sjúkdómsins koma fram að mögulegt er að greina smitefnið.

Samkvæmt nýrri könnun sem Prósent framkvæmdi telja 73% þjóðarinnar að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjármagn í aðgerðir til að koma í veg fyrir riðu í sauðfé. Í apríl á þessu ári féllst Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra á tillögu yfirdýralæknis um breytta aðferðarfræði við útrýmingu riðuveiki.

Í tilkynningu sinni ítrekar Matvælastofnun að bændur skuli gera stofnuninni viðvart ef þeir verða varir við einkenni í fé sem geta bent til riðu eða ef það drepst af óþekktum orsökum.