Ef farið er yfir málsmeðferð samrunamála hér á landi og hún borin saman við þá framkvæmd sem viðhöfð var innan Evrópusambandsins og í Noregi á tímabilinu 2017-2023 kemur í ljós að Ísland er í algjörum sérflokki.
Þetta kemur fram í grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, og Maríu Kristjánsdóttur, lögmanns á Lex lögmannsstofu,í Viðskiptablaðinu í dag.
Á tímabilinu 2017 – 2020 í Noregi og ESB fóru um 2-3% tilkynntra samruna færð í svokallaðan fasa II, sem felur í sér lengri málsmeðferð, á meðan hlutfallið hér á landi var að meðaltali tæp 44%.
„Þá vakti einnig athygli að Samkeppniseftirlitið hér á landi hafði til afgreiðslu fleiri mál í fasa II öll fjögur árin sem skoðuð voru en sú stofnun sem fór með lögsögu á hinum stóra sameiginlega innri markaði ESB. Í þessu ljósi sérstaklega töldum við ríkt tilefni til tafarlausrar endurskoðunar á málsmeðferð samrunamála hér á landi,” skrifa Heiðrún og María.
Sé litið til meðaltals liðinna fimm ára, þ.e. tímabilið 2019-2023, þá voru 37% tilkynntra samruna færðir í hina lengri málsmeðferð hér á landi. Á sama tíma var þetta hlutfall tæplega 2% hjá ESB og 3,7% í Noregi.
Á öllum fimm árunum hefur íslenska Samkeppniseftirlitið haft fleiri samruna til meðferðar í fasa II heldur en bæði ESB og Noregur, þrátt fyrir að landfræðilegt gildissvið samkeppnisyfirvalda og fólksfjöldi á þessum tveimur stöðum eru langtum stærri en hér á landi.
„Öllum má vera ljóst að þessu þarf að breyta. Ekki aðeins eru það hagsmunir viðskiptalífsins að kaup og sala fyrirtækja og rekstrareininga gangi skjótt fyrir sig, heldur hafa neytendur ekki síður af því hagsmuni að samkeppni sé virk og dýnamísk.”
Áskrifendur geta lesið ítarlega grein Heiðrúnar og Maríu um langa málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins og hvað veldur henni hér.