Endurhæfingarstöðin Janus hefur ákveðið að leggja niður starfsemi sína og verður heildrænni geðendurhæfingu félagsins hætt þann 1. júní næstkomandi. Öllu starfsfólki hefur því verið sagt upp.

Á heimasíðu Janusar segir að á þriðja tug sérfræðinga starfi hjá endurhæfingarstöðinni.

Stöðin hefur sérhæft sig í að veita ungu fólki, 18 ára og eldra, úrræði en hún segir að ekki hafi náðst að tryggja nauðsynlegt fjármagn til að halda rekstri áfram og sökum þess var ofangreind ákvörðun tekin.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins fyrr í vikunni kom fram að þríhliða samningur milli VIRK, Sjúkratrygginga Íslands og Janusar renni út 1. júní næstkomandi. Ráðuneytið sagði að áhersla verði lögð á það að tryggja þeim einstaklingum sem þar hafa notið þjónustu endurhæfingu við hæfi.

Stjórn Janusar segir í yfirlýsingunni að ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda gangi í berghögg við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir meðal annars að sérstök áhersla verði lögð á að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

„Þessi ákvörðun mun leiða til þess að ómetanleg þekking og endurhæfingargeta fyrir þennan jaðarsetta hóp tapast, endurhæfingargeta sem aldrei hefur verið meiri þörf á en einmitt nú.“

Stjórnin segir að sérhæfing Janusar hafi byggst upp á síðastliðnum 25 árum en endurhæfingin sé alfarið einstaklingsmiðuð.

Í endurhæfingunni hafi ungu fólki, sem var með langa sögu um geðræna erfiðleika, verið tryggður aðgangur að geðlæknum, sálfræðingum, iðjuþjálfun, félagsráðgjöfum og fleira.

„Yfir 56% þeirra sem hafa útskrifast frá okkur síðastliðin 3 ár hafa náð árangri með því að fara í vinnu, nám eða í virka sannanlega atvinnuleit. Tugir ungra fullorðinna eru á biðlista eftir að komast í endurhæfinguna,“ segir í tilkynningu á heimasíðu Janusar.