Fjárfestingarfélagið Omega, sem er í jafnri eigu Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, hagnaðist um 864 milljónir króna í fyrra. Eignir Omega voru bókfærðar á 10 milljarða króna og eigið fé var um 9,5 milljarðar í lok síðasta árs.
Rekstrartekjur Omega námu 982 milljónum í fyrra en þar af var gangvirðisbreyting skráðra hlutabréfa upp á 555 milljónir og vaxtatekjur að fjárhæð 430 milljónir.
Omega hagnaðist um 19 milljarða árið 2023 sem mátti rekja til þess að fjárfestingarfélagið var stærsti hluthafi Kerecis áður en íslenska lækningavörufyrirtækið var selt fyrir tæplega 180 milljarða króna til Coloplast. Omega greiddi í kjölfarið út 13,4 milljarða króna til móðurfélagsins Omega Iceland S.á r.l. í Lúxemborg.
Í ársreikningi Omega ehf. kemur fram að félagið hafi fengið greitt viðbótarsöluverð að fjárhæð 104 milljónir króna í fyrra vegna sölunnar á Kerecis á árinu 2023.
Omega ehf. lagði 12,5 milljarða króna inn í WEJV Ltd. á Kýpur fyrir árið 2023. Umrædd félag hélt utan um fjárfestingar Andra og Birgis Más í nokkrum félögum, þar á meðal í leikjasprotanum Klang Games, samkvæmt nýlegri umfjöllun RÚV. Í nýjum ársreikningi Omega ehf. kemur fram að WEJV hafi verið selt í fyrra en gera má ráð fyrir að annað félag í eigu Andra og Birgis Más hafi tekið við eignarhaldi kýpverska félagsins.
Meðal stærstu eigna Omega ehf. í dag er 36% hlutur í P190, móðurfélagi fasteignafélagsins Ásbrúar, sem var metinn á 1,6 milljarða króna í lok síðasta árs, og helmingshlutur í FA00, móðurfélagi Framkvæmdafélagsins Arnarhvols, sem var bókfærður á 885 milljónir.
Auk þess á Omega 24% hlut í Yay ehf., 49% hlut í ÍV SIF Equity Farming sem vinnur að því að byggja upp eignasafn í fiskeldi og tengdri starfsemi, 23,5% hlut í sjóðastýringafyrirtækinu Aldir, og 40% hlut í Aflvaka Þróunarfélagi sem vinnur að uppbyggingu 5.000 íbúða lífsgæðakjarna á jörðinni Gunnarshólma.
Auk ofangreindra fjárfestinga, sem eru flokkuð sem hlutdeildarfélög, var Omega í lok síðasta árs eigandi að eignarhlutum í tólf óskráðum félögum, þremur skráðum félögum og einum fagfjárfestasjóði. Fram kemur að Omega hafi í fyrra fjárfest í átta félögum fyrir 862 milljónir króna.
Þá seldi fjárfestingarfélagið hluta fjárfestingar sína í einu félagi og nam söluverðið 90 milljónir króna.
Lykiltölur / Omega ehf.
2023 |
19.289 |
19.138 |
24.073 |
23.568 |
Omega varð í ár stærsti hluthafi Heima í kjölfar þess að fasteignafélagið keypti Grósku ehf., sem á samnefnda fasteignin að Bjargargötu, og var kaupverðið greitt að öllu leyti með afhendingu nýrra hluta í Heimum. Gróska var áður að mestu í eigu Andra, Birgis Más og Björgólfs Thors Björgólfssonar en í kjölfar þess að viðskiptin gengu í gegn keypti Omega hlut Björgólfs í Heimum.
Omega fasteignir eiga í dag 10,97% hlut í Heimum sem er um 8,3 milljarðar króna að fjárhæð.