Gamla laugin ehf., sem rekur samnefnt baðlón í Hverahólmanum við Flúðir hefur á nokkrum árum orðið eitt af arðbærustu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins.

Endurbyggðu elstu sundlaug landsins

Gamla laugin, sem heitir á ensku Secret Lagoon, dregur nafn sitt af laug sem var á sama stað og var opnuð árið 1891 og er sögð vera elsta sundlaug landsins. Sundkennsla fór fram í lauginni fram til ársins 1947.

Lónið var endurbyggt árið 2014, 67 árum síðar, af núverandi eigendum og opnað sem baðlón.

Gamla laugin er í eigu hjónanna Björns Kjartanssonar og Agnieszku Szwaja en félagið skilaði í byrjun þess árs ársreikningum áranna 2017 til 2020 í fyrsta sinn inn til ársreikningaskrár en félagið sem á Gömlu laugina heitir Álaug ehf. Á því tímabili nam samanlagður hagnaður félagsins ríflega milljarði króna en rekstrartekjurnar voru samtals um 1,9 milljarðar króna. Þá nam rekstrarhagnaður áranna 2017-2020 1,2 milljörðum króna.

Því var rekstrarkostnaður félagsins um 36% af tekjum og ríflega önnur hver króna sem skilaði sér í tekjur hjá félaginu varð eftir í kassanum i formi hagnaðar. Því hefur eigið fé félagsins hækkað úr 4 milljónum króna árið 2014 í 1,1 milljarð króna árið 2020 og er félagið svo til skuldlaust. Félagið hefur einu sinni greitt út fé til hluthafa eða árið 2017 þegar það greiddi út ríflega 90 milljónir króna.

Hálfur milljarður á ári í aðgangseyri

Félagið hefur notið góðs af uppgangi ferðamennsku á svæðinu enda vinsælir ferðamannastaðir á borð við Gullfoss, Geysi og Friðheima í nágrenni við Flúðir. Þrjú þúsund krónur kostar ofan í lónið fyrir fullorðna en auk þess er veitingasala við lónið. Á árinu 2015, sem var fyrsta heila rekstrarárið, námu tekjurnar 79 milljónum króna en tekjurnar jukust annað árið, 2016, í 282 milljónir og í hálfan milljarð króna árið 2017. Þegar mest var, árin 2018 og 2019, námu tekjurnar um 630 milljónum króna hvort ár um sig, en þar af greiddu gestir um hálfan milljarð króna í aðgangseyri ofan í lónið á ári.

Hagnaðurinn bæði árin 2018 og 2019 nam um 350 milljónum króna og því var hagnaðurinn nærri milljón á dag þegar best lét. Héldu sjó í heimsfaraldrinum

Árið 2020 lækkuðu tekjurnar um 72% í 176 milljónir króna enda olli veira hruni í ferðamennsku hér á landi. Félagið skilaði engu síður 49 milljóna króna hagnaði á árinu.

Í ársreikningi ársins 2020 kemur fram að lokað hafi verið fyrir almennum gestum frá 23. mars til 7. maí og aftur frá 4. október til ársloka. Félagið hafi nýtt hlutabótaúrræði stjórnvalda vegna launa hluta starfsmanna á tímabilinu mars til júní 2020. Um 30 starfsmenn störfuðu hjá Gömlu lauginni árið 2019 í 14 stöðugildum en stöðugildunum fækkaði í 7 árið 2019. Laun og launatengd gjöld námu 97 milljónum króna árið 2019 og 55 milljónum króna árið 2020.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .