Opec+ ríkin tóku í dag formlega ákvörðun um að fresta áformaðri framleiðsluaukningu um þrjá mánuði, eða þar til í apríl. Jafnframt gera olíuríkin nú ráð fyrir að klára að vinda ofan af fyrri framleiðsluskerðingum í árslok 2026, tæplega einu ári seinna en áður var áætlað.
Opec+, sem framleiða um helming af allri olíu heims, höfðu áformað að byrja að vinda ofan af fyrri skerðingum í október síðastliðnum. Áformin hafa hins vegar frestast nokkrum sinnum vegna minnkandi eftirspurnar á heimsvísu og aukinnar framleiðslu hjá öðrum ríkjum, að því er segir í frétt Reuters.
Olíuríkin hyggjast byrja að vinda jafnt og þétt ofan af fyrri skerðingum, upp á samtals 2,2 milljónir tunna á dag, í apríl næstkomandi. Það felur í sér að daglegt framboð verði aukið um 138 þúsund tunnur á mánuði fram til september 2026 samkvæmt reikningum Reuters.
Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur haldist nokkuð stöðugt í dag. Verð á tunnu af Brent hráolíu stendur í 72,07 dölum þegar fréttin er skrifuð.