OPEC ríkin tilkynntu Evrópusambandinu í gær að þær viðskiptaþvinganir sem hafi verið lagðar á Rússland muni valda djúpri kreppu á olíumörkuðum en það væri nánast ómögulegt fyrir ríkin að koma til móts við svona stóran framboðsskell.

Mohammad Barkindo, framkvæmdastjóri OPEC, sagði viðskiptaþvinganirnar og sniðgöngur fyrirtækja valda því að það vanti um 7 milljónir tunna á dag inn á markaðinn. Það væri mun meira en OPEC ríkin gætu bætt upp með því að auka sína framleiðslu.

Kadri Simson, framkvæmdastjóri orkumála innan Evrópusambandsins, sagði OPEC ríkin hafa meiri framleiðslugetu og eiga að auka framleiðsluna til að koma jafnvægi á markaðinn. Barkindo sagði olíuríkin geta gert lítið þar sem staðan á markaðnum í dag réðist af pólitískum þáttum en ekki framboði og eftirspurn, segir í frétt Bloomberg .

OPEC ríki á borð við Sádí Arabíu hafa hafnað beiðnum frá öðrum ríkjum um að auka framleiðslu til að mæta eftirspurninni. Líklegt þykir að Sádar vilji halda góðum pólitískum tengslum við Kreml en þeir leiða til að mynda samtök olíuríkja sem kallast OPEC+ þar sem Rússland er aðili.