Olíuverð hefur lækkað í kjölfar tilkynningar Opec+ ríkjanna um helgina að auka framleiðslu annan mánuðinn í röð.
Verð á tunnu af Brent hráolíu lækkaði um meira en 4% í gær og fór undir 59 dali en hefur aðeins rétt úr kútnum og stendur í 60,6 dölum þegar fréttin er skrifuð.
Opec+ ríkin, sem innihalda m.a. Sádi-Arabíu og Rússland, tilkynntu í gær um áform um að auka framleiðslu í júní um 411 þúsund tunnur á dag þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð hefur lækkað talsvert að undanförnu vegna áhyggja um offramboð og þróunar í heimshagkerfinu vegna tollastríðs Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.
Í umfjöllun Reuters kemur fram að með boðaðri framleiðsluaukningu í júní nemur samanlögð framleiðsluaukning sem tilkynnt hefur verið um fyrir apríl, maí og júní 960 þúsund tunnum á dag. Opec+ ríkin eru þannig búin að vinda ofan af 44% af samanlögðum skerðingum frá árinu 2022 upp á 2,2 milljónir tunna á dag.
Reuters greindi frá því um helgina að Opec+ stefni á að bæta enn frekar í framleiðslu og gæti klárað að vinda alfarið ofan af hinum 2,2 milljóna tunna skerðingum í nóvember næstkomandi, samkvæmt í fimm Opec+ ríkjum.
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu eru sögð vilja refsa Írak og Kasakstan fyrir að fylgja ekki framleiðsluviðmiðum samtakanna. Greinandi hjá Saxo Bank segir að framleiðsluaukningin sé ekki síður ætluð til þess að auka hlutdeild gegn bandarískri leirsteinsolíu.