Gervigreindarfyrirtækið OpenAI, sem Microsoft hefur m.a. fjárfest myndarlega í, var metið á um 80 milljarða dala, eða um 11 þúsund milljarða króna, í nýlegum viðskiptum.

Þetta hefur New York Times eftir heimildarmönnum sem komu nálægt samningnum.

Viðskiptin fólust í því að fjárfestingarfélagið Thrive Capital gerði valfrjálst tilboð til hluthafa sem áttu þegar hlut í OpenAI. Þannig gafst starfsfólki sem átti hluti í OpenAI kostur á að selja hluti sína og leysa út hagnað.

Farið var í svipaðar aðgerðir á síðasta ári er fjárfestingarfélögin Thrive Capital, Sequoia Capital, Andreessen Horowitz og K2 Capital keyptu hluti í OpenAI með sama hætti. Í þeim viðskiptum var fyrirtækið metið á 29 milljarða dala.

Segja má að ChatGPT gervigreindartólið, sem OpenAI gaf út seint á árinu 2022, hafi komið af stað ákveðnu gervigreindaræði sem hefur m.a. ratað inn í nefndastarf Alþingis.