OpenAI, sem þróar spjallmennið ChatGPT, hefur náð samkomulagi um 40 milljarða dala fjármögnun sem SoftBank Group leiðir. Gervigreindarfyrirtækið er metið á 300 milljarða dala í fjármögnuninni og er þar með orðið eitt best fjármagnaða sprotafyrirtæki heims.
SoftBank, sem hyggst fjárfesta fyrir allt að 30 milljarða dala í OpenAI Global, hagnaðardrifinu dótturfélagi gervigreindarfyrirtækisins, sagði að til stendur að upphafleg fjárfesting upp á 10 milljarða dala verði innt af hendi um miðjan aprílmánaðar og áformað er að eftirstandandi hluti af fjármögnuninni, 30 milljarðar dala, verði kláraður í desember.
Verðmat upp á 300 milljarða dala myndi setja OpenAI í 27. sæti yfir stærstu fyrirtæki í S&P 500 vísitölunni ef gervigreindarfyrirtækið væri skráð á markað, samkvæmt Financial Times. Til samanburðar er olíurisinn Chevron með markaðsvirði upp á 295 milljarða dala og Coca-Cola 308 milljarða dala.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að til að tryggja sér heildarfjárhæðin verði Open AI að breytast í sjálfstætt hagnaðardrifið félag fyrir lok ársins. Annars geti SoftBank minnkað fjármögnunarlotuna niður í 20 milljarðar dala.
SoftBank hefur fjárfest í OpenAI fyrir 2,2 milljarða í gegnum SoftBank Vision Fund 2 sjóðinn síðan í september síðastliðnum.
OpenAI sagði að ofangreind fjármögnun muni styðja félagið í að þróa gervigreindarkerfi sem geti stutt við framvindu vísinda, auðveldað einstaklingsmiðað nám og bætt sköpunargáfu mannsins.