Tæknifyrirtækið OpenAi, sem framleiðir meðal annars gervigreindarforritið ChatpGPT, hefur tilkynnt að það hafi áhuga á því að kaupa netvafrann Chrome. Vafrinn er í eigu Google en bandarísk yfirvöld segja að tæknirisinn fari með of mikil völd þegar kemur að leitarsíðum.
Á vef BBC segir að Nick Turtley, framkvæmdastjóri OpenAi, hafi borið vitni í yfirstandandi einokunarmáli gegn Google og lýsti þar yfir áhuga fyrirtækisins. Google segir hins vegar að Chrome sé ekki til sölu og hefur kallað eftir því að málinu verði vísað frá.
Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Similarweb er talið að um 64% allra netnotenda notist við Chrome. Þar á eftir kemur Apple Safari en sá vafri er notaður af 21% allra notenda.
Dómstólar í Bandaríkjunum úrskurðuðu á síðasta ári að Google viðhéldi einokunarstöðu á netinu þegar kæmi að leitarsíðum. Í síðustu viku kom annar úrskurður sem sagði að fyrirtækið væri einnig að brjóta gegn einokunarlögum þegar kæmi að auglýsingum.
Google segist hins vegar ætla að áfrýja báðum dómum og bætir lögfræðingur tæknifyrirtækisins, Lee-Anne Mulholland, við að sölutillagan myndi skaða neytendur, efnahagslíf og tækniforystu Bandaríkjanna.