Í fjárlagafrumvarpi ársins 2023, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun, er gert ráð fyrir að svokölluð krónutölugjöld, nefskattar og aukatekjur hækki um 7,7% í samræmi við áætlaða vísitölu neysluverðs í árslok samkvæmt spá Hagstofunnar.
„Þannig munu gjöldin halda verðgildi sínu milli ára í stað þess að rýrna enn frekar að raunvirði eins og þau hafa mörg gert undanfarin ár. Þessi gjöld hafa verið óbreytt frá árinu 2019,“ segir í fjárlagafrumvarpinu.
Breytingin nær til áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjalds ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjaldi og gjöldum sem falla undir lög um aukatekjur ríkissjóðs.
Áætlað er að þessi verðlagsuppfærsla skili ríkissjóði samtals 6,4 milljörðum króna að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Þá eru bein áhrif á vísitölu neysluverðs metin á 0,2% til hækkunar.
Líkt og tilkynnt var um í byrjun sumars verður ráðist í fleiri skattabreytingar „sem viðbrögð í ríkisfjármálum til að vega á móti þenslu og verðbólgu“. Áætlað er að þessar fyrirhugaðar skattabreytingar, þar með talið ofangreinda verðlagsuppfærslan, auki tekjur ríkissjóðs samtals um 14 milljarða króna.
„Þótt að bein áhrif þeirra á vísitölu neysluverðs geti mælst allt að 0,4% þá draga þær úr almennum verðbólguþrýstingi með því að hamla þenslu í hagkerfinu. Þær draga þar með úr þörf fyrir hækkun stýrivaxta auk þess að gera ríkissjóð betur í stakk búinn til að mæta niðursveiflum í framtíðinni. Þessi almennu áhrif á verðstöðugleika og efnahagslegan stöðugleika vega þyngra en bein áhrif á vísitölu neysluverðs.“
Áfengisgjald í fríhöfninni meira en tvöfaldast
Meðal aðgerða sem ríkisstjórnin tilkynnti í júní til að bregðast við þenslu og verðbólgu var að hækka áfengis- og tóbaksgjald í fríhöfninni sem ber lægra vörugjald en í öðrum verslunum hérlendis. Á áfengi er lagt 10% af áfengisgjaldi á sölu í tollfrjálsum verslunum og á tóbak er lagt 40% af tóbaksgjaldi á söluna.
Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að til standi að draga úr afslætti í tollfrjálsum verslunum þannig áfengisgjald fari úr 10% í 25% og tóbaksgjald úr 40% í 50% af því sem almennt gildir. Áætlað er að þessi tekjuöflun leiði til ríflega 700 milljóna króna hækkunar á áætlun áfengis- og tóbaksgjalds.
1,4 milljarða tekjur af nýju varaflugvallargjaldi
Í frumvarpinu kemur fram að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra muni leggja fram frumvarp til nýrra laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu sem komi í stað þrennra laga sem nú gilda á þessu sviði. Lagt verður til gjaldtökuheimild svo flýta megi uppbyggingu varaflugvalla.
Áætlað er að tekjur af nýju varaflugvallargjaldi verði um 1,4 milljarðar króna „í samræmi við lagafrumvarp sem áformað er að leggja fram á haustþinginu 2022“. Nánari útfærsla á varaflugvallagjaldinu verður kynnt í frumvarpi innviðaráðherra.
Útsöluverð nýrra fólksbíla hækki um 5%
Ríkisstjórnin áformar að gera breytingar á vörugjaldi á ökutæki sem er lagt á við innflutning eða framleiðslu ökutækja. Umræddum breytingunum er ætlað að breikka skattstofn vörugjalds en tekjur af vörugjaldi á fólksbíla hafa dregist hratt saman síðustu ár, m.a. vegna fjölgun vistvænna bifreiða.
Tillagan felur í sér lækkun á losunarmörkum vörugjalds en í frumvarpinu segi að mörkin hafi í grunninn verið óbreytt frá því gjaldið tók fyrst mið af skráðri losun árið 2011. Á móti er þó fyrirhugað að lækka skattprósentuna samhliða til að „milda áhrif af lækkun losunarmarka“. Þá er fyrirhugað að hafa 5% lágmark á vörugjaldi sem leiðir til þess að fleiri fólksbílar munu bera vörugjald.
„Gera má ráð fyrir að útsöluverð nýrra fólksbíla geti hækkað um allt að 5% og leiða má að því líkum að verðmæti þeirra fólksbíla sem fyrir eru í landinu muni auk þess hækka vegna hærra endursöluverðs.“
Áætlað er að þessi breyting á vörugjaldi á ökutæki skili ríkissjóði 2,7 milljarða króna í viðbótartekjur. Bein áhrif á vísitölu neysluverðs eru metin um 0,2% til hækkunar.
Auk þess er gert ráð fyrir breytingum á bifreiðagjaldi, með hækkun lágmarksgjalds og losunarmarka á móti. Áætlað er að þessi breyting skili ríkissjóði 2,2 milljörðum í viðbótartekjur.
„Aðgerðinni er ætlað að styrkja tekjustofna ríkissjóðs af ökutækjum á eldsneyti en á síðustu árum hafa þeir verið að dragast saman vegna fjölgunar á vistvænum og sparneytnum fólksbílum. Með þessum breytingum verður áætlað meðaltal álagningar bifreiðagjalds á fólksbíla nálægt því sem það var árið 2017 eftir umtalsverða lækkun tekna af gjaldinu undanfarin ár.“
Verðmætagjald vegna sjókvíaeldi hækki
Að lokum má nefna að tvær breytingar verða gerðar á verðmætagjaldi vegna sjókvíaeldis. Annars vegar verður gjaldhlutfallið hækkað úr 3,5% í 5% og hins vegar er viðmiðunartímabil gjaldsins fært nær í tíma. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af gjaldinu aukist um hálfan milljarð króna á næsta ári vegna breytinganna.