Áætluð heildarupphæð í fyrirhuguðum útboðum verklegra framkvæmda þeirra tíu opinberu aðila sem taka þátt á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) 2024 nemur á þessu ári samtals 204 milljörðum króna. Það er meira en tvöföldun á raunverulegum útboðum síðasta árs þegar heildarútboð námu 89 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI en tekið er fram að munurinn skýrist helst af því að ekki varð af stórum hluta útboða sem kynnt voru á Útboðsþingi SI á síðasta ári.
Á Útboðsþingi SI 2023 voru kynnt áform níu aðila um fyrirhuguð útboð fyrir 173 milljarða króna á því ári en í lok ársins var hins vegar aðeins búið að bjóða út verkefni fyrir 88 milljarða króna hjá þeim aðilum. Útboð síðasta árs voru því 84 milljörðum króna eða 49% minni en boðað var á Útboðsþingi SI í fyrra.
„Þetta er mikill munur og undirstrikar að áform um útboð sem boðuð eru á þinginu eru ekki föst í hendi og ber því að taka þeim með fyrirvara. Einnig er rétt að árétta að verkefni sem fara í útboð á árinu geta komið til framkvæmda á næstu árum.“
Áætluð fjárfesting hjá opinberum aðilum 175 milljarðar
Áætluð fjárfesting í framkvæmdum opinberra aðila á þessu ári er 175 milljarðar króna sem er um 31 milljörðum króna meira en áætlað er að þessir opinberu aðilar fjárfestu fyrir á árinu 2023. Aukningin á milli ára er 22%. Með fjárfestingu er átt við þær verklegu framkvæmdir sem ráðist er í á viðkomandi ári.
Fyrirhuguð fjárfesting í framkvæmdum á árinu 2023 sem kynntar voru á Útboðsþingi 2023 námu 131 milljörðum króna en nýjar tölur sem kynntar eru á þinginu nú gefa til kynna að þessir sömu aðilar hafi fjárfest á árinu fyrir um 138 milljarða króna, sem er 7 milljörðum króna eða 5% meira en kynnt var á Útboðsþingi SI 2023.
„Sýnir þetta að fyrirhugaðar fjárfestingar á árinu sem kynntar eru á þinginu eru ágætis vísbending um hvert raunverulegt umfang þessara framkvæmda mun verða.”
Í greiningunni segir að nýr þátttakandi á þinginu í ár, Rarik, hífi raunfjárfestingu síðasta árs upp í 144 milljarða króna.