Fá ríki eru jafn umsvifamikil og Ísland þegar kemur að eignarhaldi hins opinbera í fyrirtækjum á sviði bankaþjónustu. Í umsögn Viðskiptaráðs við frumvarpsdrög fjármálaráðherra um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka segir að eignarhald íslenska ríkisins sé á skjön við önnur vestræn ríki

Fá ríki eru jafn umsvifamikil og Ísland þegar kemur að eignarhaldi hins opinbera í fyrirtækjum á sviði bankaþjónustu. Í umsögn Viðskiptaráðs við frumvarpsdrög fjármálaráðherra um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka segir að eignarhald íslenska ríkisins sé á skjön við önnur vestræn ríki

Viðskiptaráð birtir eftirfarandi mynd yfir opinbert eignarhald valinna ríkja í viðskiptabönkum, nánar tiltekið heildareignir viðskiptabanka þar sem opinbert eignarhald er yfir 20%. Sjá má að einungis Indland og Kína eru með hærra hlutfall en Ísland í samanburði Viðskiptaráðs.

„Umfangsmikið eignarhald íslenska ríkisins á kerfislega mikilvægum bönkum er til þess fallið að raska samkeppni með alvarlegum hætti, líkt og Samkeppniseftirlitið benti á í ákvörðun sinni í tengslum við framsal á eignarhaldi á Íslandsbanka til ríkissjóðs 2016,“ segir í umsögninni.

„Áframhaldandi sala eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka er þess vegna mikilvægt skref í færa Ísland nær þjóðunum sem við berum okkur gjarnan saman við.“

Jafnframt segir Viðskiptráð að með því að binda fjármuni skattgreiðenda í bankarekstri sé áhætta í bankarekstri sett á herðar almennings og hann látinn bera skaðann af skakkaföllum sem gætu orðið í rekstrinum. Hlutverk ríkisins ætti að snúa að því að skapa hagfellt rekstrarumhverfi viðskiptabanka, tryggja skilvirkt regluverk og eftirlit og stuðla þannig að stöðugleika.

Tækifæri til að losa um eignarhald víðar

Viðskiptaráð bendir á að auk fjármálafyrirtækja séu umtalsverðir fjármunir hins opinbera bundnir í öðrum fyrirtækjum. Í umsögninni er að finna mynd yfir áætlað söluvirði fjórtán ríkisfyrirtækja en samtals gætu þau skilað ríkissjóði 1.795 milljörðum króna miðað við áætlun Viðskiptaráðs.

„Að mati Viðskiptaráðs ber að skoða hvernig megi draga úr skuldsetningu ríkissjóðs með því að losa um eignarhald á þessum fyrirtækjum. Það er sérstaklega aðkallandi í ljósi þess að vaxtagjöld ríkissjóðs eru komin yfir 100 milljarða og orðin einn af stærstu útgjaldaliðunum,“ segir í umsögninni.

„Með því að losa um eignarhald á fyrirtækjum í eigu hins opinbera mætti auka samkeppni samhliða því að laða að fjárfestingu, bæði frá innlendum aðilum og erlendum.“