Drift EA hefur opnað fyrir umsóknir í Slipptökuna (e. Test Drive) 2025 þar sem þátttakendur og frumkvöðlar munu fá leiðsögn sérfræðinga, þjálfun í framkomu og þróun viðskiptahugmynda.
Í Slipptökunni felast fjórar vinnustofur fyrir frumkvöðla og teymi með hugmyndir og endar svo á formlegri kynningu verkefnanna þar sem valin verkefni komast áfram í Hlunninn.
Drift EA er miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar staðsett á Akureyri við Ráðhústorg og byggir á sænskri fyrirmynd sem hefur vakið athygli fyrir árangursríkt stuðningsumhverfi fyrir sprotafyrirtæki og samfélagsverkefni.
„Við erum sérstaklega að leita að fólki með hugmyndir sem er tilbúið að helga sig verkefninu með krafti og tíma,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA.
Á síðasta ári tóku 14 teymi þátt í Slipptökunni og sex þeirra komust áfram í Hlunninn. Þar á meðal voru sprotafyrirtækin Quality Console, sem þróar stafrænt gæðaeftirlitskerfi fyrir matvælaiðnað, Sea Thru, sem vinnur að rekjanleikakerfi fyrir sjávarafurðir og Grænafl, sem vinnur að orkuskiptum í strandveiðiflotanum.