Marel hefur gert samstarfssamning við ADM um opnun hátækni bragð- og áferðarmiðstöðvar fyrir viðskiptavini sem vilja nýta aðstöðuna til nýsköpunar á sviði plöntutengdrar próteinframleiðslu. Áætlað er að opnunin verði síðari hluta árs 2024.
Í tilkynningu Marels segir að rannsóknarmiðstöðin verði staðsett á háskólasvæði Wageningen háskólans í Hollandi, eins virtasta lífvísindaháskóli heims. Hún muni samanstanda af tilraunaverksmiðju og rannsóknarstofum.
„Aðstaðan mun gera framleiðendum og fræðimönnum á sviði matvælaframleiðslu kleift að starfa saman og nýta hátæknilausnir til að prófa sig áfram og útbúa frumgerðir, framleiða og markaðssetja nýjar afurðir plöntupróteina og annarra vegan próteina, sem og þróa nýjar vinnsluaðferðir.“
ADM er eitt stærsta fyrirtækið í heimi í matvælaframleiðslu. Félagið er skráð í kauphöll Nasdaq í New York og er meðal fyrirtækja sem mynda S&P 500 vísitöluna. Starfsmenn félagsins eru um 42.000 talsins um allan heim og voru tekjur félagsins yfir 100 milljarðar dollara árið 2022.
„Nýja aðstaðan mun efla enn frekar þjónustu okkar við viðskiptavini á nýjum og vaxandi mörkuðum,“ segir Jesper Hjortshoj, forseti Wenger, dótturfélags Marel, og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Marel.
„Marel og ADM hafa starfað saman um áraraðir með góðum árangri og grundvallast samstarfið nú á því trausti sem byggst hefur upp milli fyrirtækjanna. Viðskiptavinir okkar munu fá aðgang að einstakri aðstöðu til að þróa vinnsluaðferðir og vörur, allt frá hráefni til lokaafurða.“
Samstarfsverkefnið kemur í kjölfar 70 milljarða króna kaupa Marels á bandaríska fyrirtækinu Wenger, sem er sérhæfir sig á sviði þrýstimótunar (e. extrusion) og þurrkunar fyrir plöntuprótein, gæludýrafóður og fiskeldisfóður. Wenger er í dag sjálfstæð eining innan Marel og myndar fjórðu stoðina í viðskiptalíkani fyrirtækisins.
