Malasíska félagið Berjaya Food Berhad mun opna tvö kaffihús hér á landi undir merkjum Starbucks og mun það fyrsta opna í maí næstkomandi.

Kaffihúsin verða staðsett í miðbæ Reykjavíkur og verður tilkynnt um nákvæma staðsetningu og tímasetningu á opnun þeirra á næstu vikum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Rekstur kaffihúsanna er í höndum malasíska fyrirtækisins Berjaya Food Berhad í gegnum systurfélag sitt Berjaya Food International, sem hefur tryggt sér rekstrarleyfi Starbucks í Finnlandi og Danmörku auk Íslands.

Í tilkynningu segir að hönnun staðanna og þjónusta muni taka mið af því sem viðgengst á Starbucks í Malasíu. Á kaffihúsunum verði lögð áhersla á persónulegt og hlýlegt andrúmsloft með fjölbreytt úrval af kaffidrykkjum og veitingum sem Starbucks sé þekkt fyrir um heim allan.

„Við erum spennt að geta loksins kynnt Starbucks fyrir Íslendingum og vonumst til að kaffihúsin verði áfangastaður fyrir frábært kaffi og góðar samverustundir,“ segir Dato’ Sydney Quays, forstjóri Berjaya Food Berhad.

„Við hlökkum til að kynna hið einstaka Starbucks andrúmsloft ásamt hlýlegri malasískri gestrisni. Á sama tíma leggjum við áherslu á að styrkja íslenskt samfélag með því að skapa atvinnu og eiga í samstarfi við innlend fyrirtæki með kaupum á vörum og þjónustu,“ bætir hann við.

Í tilkynningu segir að hönnun staðanna og þjónusta muni taka mið af því sem viðgengst á Starbucks í Malasíu. Hér er kaffihús Starbucks í Kuala Lumpur, Malasíu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrirtækið standi fast við þau gildi og loforð sem viðskiptavinir Starbucks þekki frá öðrum mörkuðum þar sem markmiðið sé að bjóða upp á úrvals kaffi og stuðla að jákvæðum samfélagslegum áhrifum.

„Það gleður okkur að auka viðveru okkar á Norðurlöndum í samstarfi við traustan og langvarandi viðskiptafélaga okkar, Berjaya Food Berhad, og leggja okkar af mörkum til líflegrar kaffimenningar á svæðinu,“ segir Duncan Moir, forstjóri Starbucks í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku.

„Á grundvelli 26 ára samstarfs við Berjaya Food, hlökkum við til að tengjast enn fleiri viðskiptavinum í gegnum Starbucks kaffi og leggja metnað í að fjárfesta með varanlegum áhrifum í velferð starfsfólksins okkar og samfélagsins alls,“ bætir Moir við.