Steinþór Helgi Arnsteinsson og Ásgeir Guðmundsson, meðeigendur og stofnendur Röntgen bars, ætla að opna vínbar og veitingastað á Laugavegi 4. Barinn verður á annarri og þriðju hæð hússins og eldhúsið á efri hæðinni.

Samkvæmt hlutafélagaskrá verður staðurinn vínbar með tapas réttum. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Steinþór hins vegar ekkert ákveðið varðandi þema vínbarsins. Hann bætir við að stefnt sé að opnun staðarins í fyrsta lagi í lok sumars en líklega í byrjun september.

Þeir Steinþór og Ásgeir opnuðu Röntgen bar á Hverfisgötu í lok árs 2019 og reka auk þess veitingastaðinn Vagninn á Flateyri. Steinþór er umboðsmaður hljómsveitarinnar Hjaltalín, en þeir félagar hafa báðir mikla reynslu af rekstri veitinga- og skemmtistaða og hafa auk þess verið í tónleikahaldi.