Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, segir verð­bólgu­tölur dagsins styrkja spá greiningar­deildar bankans um að vextir verði lækkaðir í nóvember.

Hann segir minni líkur en meiri að vextir verði lækkaðir í næstu viku miðað við fundar­gerð peninga­stefnu­nefndar Seðla­bankans frá ágúst­fundi sínum.

Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, segir verð­bólgu­tölur dagsins styrkja spá greiningar­deildar bankans um að vextir verði lækkaðir í nóvember.

Hann segir minni líkur en meiri að vextir verði lækkaðir í næstu viku miðað við fundar­gerð peninga­stefnu­nefndar Seðla­bankans frá ágúst­fundi sínum.

„Í okkar spá vorum við að gera ráð fyrir að vaxta­lækkunar­ferli myndi hefjast í nóvember en vonuðumst til þess að því yrði gefið undir fótinn í næstu viku,“ segir Jón Bjarki.

„Líkurnar á því hafa klár­lega aukist og ég held það sé enn lík­legasta niður­staðan að það verði lækkað í byrjun nóvember en það eru líkur á að það verði tekið stærra skref þá.“

Spurður hvort lík­legt sé að vextir yrðu þá lækkaðir um 50 punkta líkt og gert var í Banda­ríkjunum á dögunum, segir Jón Bjarki það sé alveg lík­legt.

Hann segir þó ekki lík­legt að vextir verði lækkaðir í næstu viku.

„Það væri svo­lítið klaufa­leg væntinga­stýring. Peninga­stefnu­nefndin var að vissu leyti ó­heppin með skamm­tíma­þróunina fyrir vaxta­á­kvörðunina í ágúst þar sem verð­bólgu­tölur í júlí voru þungar. Mögu­leikinn á vaxta­lækkun var ekki einu sinni ræddur á síðasta fundi.“

„Með hlið­sjón af því að þau hafa talað um að það þyrfti að undir­byggja vaxta­lækkunar­ferli og hefja það á trú­verðugum tíma og þar fram eftir götunum þá held ég það séu mestar líkur á að þessu verði gefið undir fótinn í næstu viku og hafist svo handa við að lækka í nóvember,“ segir Jón Bjarki að lokum.