Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir verðbólgutölur dagsins styrkja spá greiningardeildar bankans um að vextir verði lækkaðir í nóvember.
Hann segir minni líkur en meiri að vextir verði lækkaðir í næstu viku miðað við fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans frá ágústfundi sínum.
„Í okkar spá vorum við að gera ráð fyrir að vaxtalækkunarferli myndi hefjast í nóvember en vonuðumst til þess að því yrði gefið undir fótinn í næstu viku,“ segir Jón Bjarki.
„Líkurnar á því hafa klárlega aukist og ég held það sé enn líklegasta niðurstaðan að það verði lækkað í byrjun nóvember en það eru líkur á að það verði tekið stærra skref þá.“
Spurður hvort líklegt sé að vextir yrðu þá lækkaðir um 50 punkta líkt og gert var í Bandaríkjunum á dögunum, segir Jón Bjarki það sé alveg líklegt.
Hann segir þó ekki líklegt að vextir verði lækkaðir í næstu viku.
„Það væri svolítið klaufaleg væntingastýring. Peningastefnunefndin var að vissu leyti óheppin með skammtímaþróunina fyrir vaxtaákvörðunina í ágúst þar sem verðbólgutölur í júlí voru þungar. Möguleikinn á vaxtalækkun var ekki einu sinni ræddur á síðasta fundi.“
„Með hliðsjón af því að þau hafa talað um að það þyrfti að undirbyggja vaxtalækkunarferli og hefja það á trúverðugum tíma og þar fram eftir götunum þá held ég það séu mestar líkur á að þessu verði gefið undir fótinn í næstu viku og hafist svo handa við að lækka í nóvember,“ segir Jón Bjarki að lokum.