Bláa lónið og Opni háskólinn í Háskólanum í Reykjavík hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að starfsfólks Bláa lónsins stendur til boða að sækja fjölbreytt námskeið Opna háskólans endurgjaldslaust.
Einnig verða ákveðin námskeið sérsniðin og þróuð í takti við þarfir Bláa lónsins frá einum tíma til annars.
„Við leituðum til HR og Opna háskólans með það fyrir augum að bjóða starfsfólki upp á aukið úrval fræðslu og menntunar. Bláa lónið er afar fjölbreyttur vinnustaður og við teljum að námsframboð Opna háskólans falli vel að okkar þörfum. Þetta er frábær viðbót við aðra faglega fræðslu sem við starfrækjum í Bláa lóns skólanum. Við leggjum mikinn metnað í að styðja okkar fólk til náms og styrkja það í starfi og leik,“ segir Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Bláa lóninu, í tilkynningu.
„Það er mikil spenna í mannskapnum hjá Opna háskólanum kringum þetta skemmtilega verkefni og fyrstu námskeiðin hafa nú þegar verið vel sótt. Þar má nefna námskeið í leiðtogafærni, ferla- og gæðastjórnun, auk stafræns námskeiðs í hagnýtri verkefnastjórnun. Okkar fyrirheit er að styðja vel við framsækin markmið Bláa lónsins hvað snertir fræðslu og þjálfun mannauðsins þar, en á sama tíma munum við vafalaust læra heilmikið af þeim. Það mun síðan auðvitað nýtast í frekari þróun á okkar þjónustu til framtíðar,“ segir Helgi Héðinsson, forstöðumaður Opna háskólans í HR.