Íslenska sprotafyrirtækið Optise hefur tryggt sér 300 milljóna króna fjármögnun frá fjárfestingarsjóðnum Frumtak til að þróa nýja og byltingarkennda vefgreiningarlausn sem byggir á gervigreind.
Lausnin er hugsuð sem einfaldari og aðgengilegri valkostur við hefðbundin greiningartól á borð við Google Analytics.
Optise nýtir háþróaða gervigreind til að greina umfangsmikil gögn og veita fyrirtækjum skýrar ráðleggingar um hvernig bæta megi árangur vefsíðna þeirra.
Lausnin er sögð sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu og hefur þegar vakið athygli fyrir að sameina tækni og notendavænt viðmót með það að markmiði að hámarka sölu og bæta upplifun notenda.
„Vefsíðan er mikilvægasti snertiflötur fyrirtækis við viðskiptavini í dag, en samt eru margar vefsíður sem finnast ekki á leitarvélum, bjóða upp á slaka notendaupplifun og eru ekki hannaðar til að breyta heimsóknum í sölu,“ segir Ómar Þór Ómarsson, meðstofnandi og forstjóri Optise.
„Ég skil mæta vel að þetta sé vandamál. Flestir sem bera ábyrgð á vefsíðum eru ekki sérfræðingar í vefsíðugerð né með doktorsgráðu í tölfræði. Fólk veit hreinlega ekki hvað tölurnar þýða eða hvaða breytingar það á að gera til að bæta árangur vefsíðunnar. Tólin sem eru í boði í dag, eins og Google Analytics, eru einfaldlega alltof flókin fyrir venjulegt fólk. Þess vegna stofnuðum við Optise – til að hjálpa fólki að gera vefsíðuna þeirra frábæra fyrir notendur og arðbæra fyrir fyrirtæki.“
Á sama tíma og netverslun hefur vaxið hratt á heimsvísu – um 50% á síðustu fjórum árum – er búist við áframhaldandi vexti og telur Frumtak að tímabær lausn sé komin fram á sjónarsviðið.
„Optise er frábær lausn og gott dæmi um það sem við horfum til hjá Frumtaki – metnaðarfullt teymi með sterka sýn, tæknilega getu og lausn sem leysir raunverulegt vandamál á alþjóðlegum markaði. Vefsíðan er orðin mikilvægasti söluvettvangur margra fyrirtækja, en of fáir nýta hana til fulls. Allir sem hafa rekið vefsíðu þekkja þetta vandamál – og þar kemur Optise sterkt inn. Við erum spennt að taka þátt í næsta kafla félagsins með þessu öfluga teymi,“ segir Andri Heiðar Kristinsson, meðeigandi og fjárfestingastjóri hjá Frumtak.